Kvennasögugangan er nú gengin í fyrsta sinn á Akureyri en hún er samvinnuverkefni, Jafnréttisstofu, Zontaklúbbanna á Akureyri og Minjasafnsins. Gengið verður frá Samkomuhúsinu kl.16.15 og mun Elín Antonsdóttir leiða gönguna. Áður en gangan hefst mun Sigrún Björk Jakobsdóttir ávarpa göngugesti. Í göngunni um innbæinn munu kjarnakonur eins og Vilhelmína Lever, Ragnheiður O. Björnsson, Anna Þorbjörg, Elísabet Geirmundsdóttir og fleiri konur koma við sögu. En allar þessar konur bjuggu og störfuðu í Innbænum. Valgerður Bjarnadóttir flytur ávarp í lok göngunnar og boðið verður uppá kaffi í Zontahúsinu að göngunni lokinni. Allir velkomnir
Þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til alþingis. Baráttan hafði staðið frá árinu 1885 þó fyrsta opinbera krafan um kosningarétt kvenna hafi ekki komið fram fyrr en árið 1895. Í ár eru liðin 88 ár frá því konur öðluðust kosningarétt og kjörgengi á við karla.