Gestir Minjasafnsins á Akureyri árið 2006 voru 33.610 talsins og gestir Iðnaðarsafnsins á Akureyri 5.785. Samtals tóku söfnin því á móti 39.395 gestum. Það samsvarar því að hver einasti íbúi Akureyrar hafi heimsótt söfnin rúmlega tvisvar á árinu.
Gestum safnanna fjölgaði um 10.393 frá árinu 2005.
Hér er átt við gesti á sýningar og viðburði á vegum Minjasafnsins í Aðalstræti 58 á Akureyri, gamla bænum og Gamla prestshúsinu í Laufási, og á miðaldakaupstaðnum á Gásum í Hörgárbyggð. Einnig gesti Iðnaðarsafnsins, en Minjasafnið hefur umsjón með því samkvæmt þjónustusamningi. Laufás er fjölsóttastur þessarra staða en þar tekur Laufáshópurinn virkan þátt í sýningum á gömlum vinnubrögðum. Þangað komu 18.766 gestir í fyrra og var meirihluti þeirra erlendir ferðamenn í hópferðum. Íslendingar koma mun meira en erlendir ferðamenn í Minjasafnið og Iðnaðarsafnið og nemendur af öllum skólastigum eru stærsti gestahópurinn á sýningar Minjasafnsins. Í fyrra voru þeir 3.933 talsins, langflestir úr Eyjafirði. Iðnaðarsafnið og hollvinafélag Húna II tóku að gera út skipið Húna II til skemmti- og sögusiglinga sumarið 2006.
Mikil gróska var á síðasta ári í viðburðadagskrá safnanna. Á síðasta ári voru viðburðirnir fleiri en nokkurn tíma áður, eða 60 talsins, sem þýðir að söfnin stóðu fyrir rúmlega einum viðburði á viku allt árið eða einum viðburði á dag yfir tveggja mánaða tímabil. Með viðburðum er átt við sögugöngur, söngvökur, starfsdaga og tyllidaga, en þá eru notaðar ýmsar aðferðir til miðlunar á sögulegu efni. Stærsti einstaki viðburðurinn í fyrra var miðaldamarkaður á Gásum. Þangað komu 1.400 gestir en það eru um 6% af íbúafjölda Eyjafjarðar eða liðlega 8% íbúa Akureyrar. Aðrir fjölsóttir viðburðir voru sumardagurinn fyrsti, Jónsmessuhátíð og draugaganga á Akureyrarvöku, ásamt dagskrá um sr. Matthías Jochumsson sem Stoð vinafélag Minjasafnsins sá um.
Minjasafnið veitir margs konar þjónustu aðra en sýningar og viðburði. Nægir þar að nefna úrlausnir fyrirspurna um ljósmyndir, gamla muni og byggingar. Þess ber að geta að sýningar, önnur miðlun og samskipti við notendur eru aðeins hluti af starfsemi safnanna. Söfnin hafa lagaskyldur til að safna, varðveita og rannsaka sögulegar minjar. Sú vinna er að jafnaði lítið sýnileg en er þó undirstaða alls, því án hennar hefðu söfnin litlu að miðla.
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30