Önnur söngvaka sumarsins verður haldin laugardaginn 5. júlí kl. 20:30 í Minjasafnskirkjunni á Akureyri. Minjasafnið á Akureyri hefur boðið upp á söngvökur síðan 1994. Þær hafa vakið verðskuldaða athygli enda hvergi hægt að finna skemmtidagskrá af þessum toga. Flytjendur eru þau Þórarinn Hjartarson og Kristjana Arngrímsdóttir. Aðgangseyrir er 1500 krónur.  Í sérstakri en viðeigandi umgjörð Minjasafnskirkjunnar eru áheyrendur leiddir í söngferðalag í tali og tónum um íslenska tónlistarsögu frá miðöldum til okkar daga. Efnisskráin er afar fjölbreytt og spannar allt frá dróttkvæðum miðalda til söngva og þjóðlaga frá nítjándu og tuttugustu öld.