innsigli_400

Steindór Steindórsson frá Hlöðum segir í Eimreiðinni frá árinu 1936 að séra Matthías hafi litið á starf blaðamannsins sem starf fræðslu og vakningar til hvers kyns dáða og drengskapar. Og þeirri stefnu var hann trúr allt í gegn. Hann hafði knýjandi innri þörf til þess að gera almenning hluttakenda í hugarefnum sínum og áhugamálum, var til hinsta dags sívekjandi og fræðandi, sígefandi af nægtabúri fróðleiks síns og andríkis. Tilvitnun líkur. Séra Matthías stýrði Þjóðólfi, er þá var elsta og helsta blað landsins, í full sex ár, frá 1874 - 1880, og síðar, er hann var kominn norður til Akureyrar, gaf hann Lýð út í tvö ár 1888-1890. En auk þessa var hann sískrifandi í flest blöð landsins og tímarit um hartnær hálfrar aldar skeið, eða meðan hann fékk valdið pennanum. Tildrög þess, að séra Matthías gerðist ritstjóri, má lesa í ,,Söguköflum hans. Hann var þá í bili þreyttur á prestskapnum. Ofurharmar höfðu lamað hann, og honum þótti einnig andrúmsloftið orðið nokkuð þungt innan vébanda Þjóðkirkjunnar. Á meðan hann dvelur á Englandi sér til hressingar og heilsubótar, fréttir hann að Þjóðólfur væri falur. Með tilstyrk breskra vina sinna kaupir hann blaðið og tekur síðan við ritstjórn þess. Fyrsta tölublaðið frá hans hendi kom út 4. maí 1874. Þjóðólfur var þá  rúmlega aldarfjórðungs gamall og hafði staðið fremstur í fylkingu í stjórnmálabaréttu vorri fram að þeim tíma. Í höndum séra Matthíasar verður stefnubreyting í blaðinu í því efni. Stjórnmálaþref var áreiðanlega fjarri skapi hans og lífsstefnu allri. ,,Um daga hans var mig minna að marka, Matthías kunni aldrei að þjarka”. Þannig lætur hann, Þjóðólf lýsa ritstjórn sinni á 50 ára afmæli blaðsins. Og eiginlega lýsa þessi vísuorð mjög vel  ritstjórn séra Matthíasar. Þjark þref og stagl um stjórnmálaerjur er ekki að finna í blöðum hans. En einmitt þess vegna er hætt við, að áhrif þeirra hafi minni orðið en hann hefði óskað og æskilegt hafi verið, jafnglæsilega og þar var stýrt og stefnt.Stefna séra Matthíasar sem blaðamanns er skýrar mörkuð í inngangsorðum hans í Lýð 14 árum síðar. En jafnt geta þau ummæli átt við Þjóðólf, því að í báðum blöðunum er sama stefna og sami andi mannúðar og víðsýni, sami viljinn til að friða og göfga allan landslýð.Stefnuskrá Lýðs þarf ekki langs umtals við. Og henni er séra Matthías trúr í allri sinni blaðamennsku. Hann lætur sér engan mannlegan hlut óviðkomandi. Hann er boðberi friðar og réttlætis, hvar sem hann fær því við komið. Víðsýni, sanngirni og mannúð eru þeir meginþættir,sem blaðamennska hans er ofin úr.Vilhjálmur Þ. Gíslason segir í bók sinni Blöð og blaðamenn 1773-1944 er hann fjallar um Matthías. „Þau mál sem Matthías lét mest til sín taka í Þjóðólfi og seinna í Lýð, voru trúmál, menntamál, bókmenntir og leiklist, en einnig fjármál, skattamál og þingfréttir.“Matthías skrifaði líka um trúfrelsi, því hann segir á einum stað að kirkja samtímanns á Íslandi minni fremur á myrkur miðalda heldur en á lifandi fjör og anda hinnar 19. aldarHann skrifaði um Lýðháskóla Grundvigs og gildi þeirra. Af fréttum skrifar hann um almennar bæjarfréttir, af stúdentafélaginu, skotmannafélaginu, glímufélaginu og söngfélögum. Þá skrifaði hann um skipakví í höfuðstaðnum, segir að hver bær þurfi fyrst og fremst kirkju, skóla og skála, vill reyna að stöðva straum slæmra bóka og reisa nýja kirkju í Reykjavík. Hann hafði Carl Rósenberg fyrir fréttaritara í Höfn.Þegar flett er Þjóðólfsárgöngum sr. Matthíasar kemur það í ljós, að hann var á marga lund góður ritstjóri, en greinilega í þeim meginstraumi blaðamennskunnar, sem í voru bókmenntir og menntamál, fremur en stjórnmálaerjur. Hann segir í Þjóðólfi 1875, um hinn nýja tíma, að ,,skáld hafa komið fram og vakið fólkið með ljósi hinnar guðdómlegu sönggáfu”, þó að honum sé einnig ljós hlutur framkvæmdarmanna og lærdómsmanna.Þegar sr. Matthías tekur við Þjóðólfi segist hann vilja ,, vinna þjóðinni það gagn, sem hann orkar”, og glæða heilbrigðan þjóðarvilja. En sannur þjóðvilji er, segir hann, almenn framfarastefna, byggð á frjálslyndi, viti og réttvísi. ,, Með þess konar þjóðvilja stendur og fellur velferð og hamingja vor.”Sr. Matthías sagði í söguköflum af sjálfum sér að á blaðamennsku sinni hefðu verið bæði brestir og kostir. En hann segist hafa haldið fullri kaupendatölu frá því hann tók við blaðinu og var það vegna ,,vinsælda minna við kaupendur.” Á þessum ritstjórnarárum Mattíasar hófst hann handa við að  semja leikritin,, Vesturfarana og hinn ,, Hinn sanna þjóðvilja. Þá gáfu þeir Steingrímur Thorsteinsson út þýðingarsafnið ,, Svanhvít´´ sem átti miklum vinsældum að fagna. Á þessum tíma var hann einn þeirra sem stofnuðu hið svonefnda ,,Fornleifafélag í framhaldi af vináttu hans og Sigurðar Vigfússonar fornfræðings. Hugurinn var líka við kirkjuna og hinn sanna kristindóm fullan af logandi mannelsku. Hann prédikaði því við og við í dómkirkjunni og hann fann að brátt kæmi að því að sorgarþokunni létti og andleg heilsa hans færi að hressast og bjartsýnin hefði beturMatthías seldi Þjóðólf 1881 Kristjáni Þorgrímssyni og Agli Egilsen fyrir 900 kr., en fékk ekki nema 700 kr. greiddar. ,, svo bættu þeir gráu ofan á svart” segir Matthías. Þeir skömmuðu mig rækilega í fyrsta eintaki þeirra af Þjóðólfi  fyrir mína ritstjóraframmistöðu.Matthías reiddist þessum gjörðum, en hló þó í huganum að brellum þessara manna, sem voru hæfileikamenn, hvor á sinn hátt, gagnólíkir en nokkuð lausráðir og áttu í braski eins og segir í bókinni Sögukaflar af sjálfum mér. Fyrir kom að Matthías gerði skop eða skammarvísur og af þessu tilefni lét hann eina slíka fjúka. Taldi hann að þetta væri eina skammar vísan sem eftir hann finnist, því meinlegum og ljótum vísum var hann vanur að lóga áður en þær bærust út eins og hann sagði sjálfur frá í söguköflum sínum. En vísan var þessi:

Skammkell fór að skapa blað,
Skjögraði hlöðukálfur.
Lyga-Mörð að letra það
Léði´ honum fjandinn sjálfur.

 

hanneshafst_400

Ekki var Matthías reiðari þessum mönnum en það að í framhaldi af þessari vísu í bók sinni fer hann að tala vel um þá og segir af þeim nokkrar gamansögur og svo af  þorgrími föður Kristjáns. Þessi Þorgrímur var bráðlyndur maður. Eitt sinn reif vindurinn hey það er hann hlóð úr. Þá reiddist Þorgrímur og æpti: Fleiri kunna að þeyta heyi en þú vindskratti: Síðan þeytti hann sjálfur heyi sínu sem óður væri. Í annað sinn sá hann hrúta tvo, er hann átti, berjast á brúninni á háum sjávarbökkum, og lauk svo þeirra viðskiptum, að annar hrúturinn hrapaði í fjöru niður til bana. Þorgrím bónda bar að í því og þreif hann þegar til hins hrútsins, las yfir honum fáryrði og bað hann fara sömu ferð og fylgja,, bróður sínum’’, fleygði síðan bróðurbananum niður fyrir bjargið. Þetta sýnir að Matthías var ekki skaplaus maður þegar hann var rangindum beittur og þarna launaði hann þeim félögum fyrir tvöhundruð króna missinn.Matthías gaf út blaðið Lýð á árunum 1888-1890. Var það talin misheppnuð tilraun til að halda úti Akureyrarblaði. Fyllti samt heilan árgang af Lýð með andríki sínu, uppfræðingu og hvatningu, ásamt með nokkurri mylsnu, eins og gengur og ekki verður umflúið, stendur einhverstaðar.,,Blað mitt fékk lítið fylgi og flokkstjóri var ég engi´’ segir Matthías, hann kaus helst,, að reyna að glæða siðmenningar og samhygðarmál’’, þó þau ætti ekki ,,við tíma og tísku“.Matthías var komin á þá skoðun, að hann væri meiri kennimaður en blaðamaður, að þröngsýni í trúmálum væri mannanna verk, og að hann þrátt fyrir skoðanir sínar gæti verið starfsmaður þjóðkirkjunnar og útbreitt kenningar Krists og frjálslindi í trúmálum. Hann hvarf því af vettvangi blaðamennskunnar því árið 1879 losnuðu tvö ágæt prestaköll og nú lét Matthías til skarar skríða og sótti um annað hvort. Var honum af ráðherra gefinn kostur á að velja og kaus hann Odda á Rangárvöllum. Taldi hann það ekki aðeins upphefð heldur og mikinn vanda að vera sestur á öndvegi Sæmundar fróða Sigfússonar. Hér hefur í örfáum orðum verið vikið að ritsjórar árum þjóðskáldsins og prestsins Matthíasar Jochumssonar. Það er tilhlýðilegt að enda á litlu ljóði þar sem skáldið er að velta fyrir sér tilgangi lífsins.

Að verða að vera 
eða: var ég hér fyr?
Og hvað skyldi ég gera
í heiminn, ég spyr.

                                                                                  

Höfundur: Þorsteinn Þorsteinsson.     

 

Heimildir: 

Matthías Jochumsson. Sögukaflar af sjálfum mér. Ísafoldarprentsmiðja. Reykjavík 1959.

Steindór Steindórsson frá Hlöðum. Blaðamennska Matthíasar Jochumssonar. Eimreiðin, 42. ár, 1936.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Blöð og blaðamenn 1773-1944. Almenna bókafélagið, Reykjavík 1972.