m14664_400 

Drottins dýrð
er ei dulspeki
ekki mannvit
ekki vísindi
Hún er „ gleym mér ei“
þeirra guðsbarna
er bana dauðans
blindandi sjá 

 

Ljóðið, sem þetta erindi er tekið úr, yrkir Matthías 84 ára gamall. Það eru engin ellimörk á ljóðagerðinni og þarna fara saman braglist og orðsnilld. Árið 1919 er Matthías orðinn sjóndapur og heilsu hans farið að hraka en kraftur andans var hinn sami rétt eins og á yngri árum hans.

Þegar Matthías fluttist norður árið 1887 voru harðindaár í landinu og margir liðu sára nauð. Erfitt var að framfleyta stórri fjölskyldu og það sóttu að honum þungar hugsanir. Einnig fannst honum sóknarbörn sín tómlát og treg að ganga í guðshús á helgum dögum.

En brátt fór hann að una vel sínum hag, hann fékk lausn frá embætti 1. desember 1899 frá 1. janúar 1900 en var settur til þjónustu áfram til fardaga sama ár. Aldamótaárið varð að mörgu leyti viðburðaríkt í ævi skáldsins því honum voru veitt heiðurslaun úr landssjóði sem höfuðskáld Íslendinga. Einnig ákveða þau hjónin, Matthías og Guðrún Runólfsdóttir, að byggja hús yfir sig og fjölskylduna. Í gjörðabók Fasteignamatsnefndar í Akureyrarkaupstað stendur: 

„Eyrarlandsvegur Nr. 3
Eigandi: Matthías Jochumsson, skáld.
Íbúðarhús úr timbri með járnklæddu þaki, einlyft með porti og háu risi, á kjallara, stærð 10,0 x 7.5 m. Alls 11 herbergi auk geymslu, byggt 1900. Verandi 5x2 m. Skúr 4x1,3.
Lóðin öll að stærð 1153 ferm. að miklu leyti matjurtagarður, girt með timbri og vír.
Eigandi notar eignina sjálfur.
Virðing: 1. Húsið Kr. 8.000  2. Lóðin 600 Samt. 8.600“.

sigurhadir_400_01

 Í Jónsbók I, sem er skrá yfir lóðir og hús á Akureyri til ársins 1933, og varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, má lesa: „1903, 2. maí. Matthías Jochumsson fær að byggja í brekkunni vestan Hafnarstrætis, í lautinni upp af Bergsteinshúsi“.

Þarna gætir ónákvæmni með ártölin en íbúaskrá Akureyrarbæjar tekur af allan vafa. Í nóvember árið 1902 býr Matthías ásamt fjölskyldu sinni í húsi þeirra við Aðalstræti sem nú er Aðalstræti 50 en í nóvember 1903 er fjölskyldan komin á Sigurhæðir.

Nú fóru þægilegri tímar í hönd, húsnæðið nýtt, háreistara og útsýni vítt til allra átta. Frú Guðrún kom upp blómagarði vestan við húsið en uppi í brekkunni var matjurtagarður fjölskyldunnar og veröndin varð hvíldarstaður á góðviðrisdögum. Frá henni lágu tvennar dyr, á vinstri hönd var gengið inn á kontór skáldsins en dyrnar til hægri lágu inn í betristofu heimilsins og gengið í gegnum hana inn í borðstofuna. Rennihurð var á milli stofanna og í minningum barnabarna skáldsins var norðurstofan aðal íverustaður fólksins og í reynd hjarta hússins.

sh02_400

Eins og áður hefur verið vikið að var tíðin köld og dýrt að kynda marga ofna í húsinu. Því var það að á vetrum safnaðist heimilisfólk saman í borðstofunni, húsmóðirin  prjónaði ullarflíkur á prjónavélina, dæturnar saumuðu út, gömul frænka spann á rokk og barnabörnið lærðu við borðstofuborðið.

Flestir, sem skoða Sigurhæðir, álíta að Matthías hafi skrifað, samið og þýtt allt við skrifborðið sitt á kontórnum en svo virðist ekki vera samkvæmt minningum dótturdóttur hans. Á dimmum síðkvöldum kom skáldið með lampann af kontórnum og settist við púltið sitt í borðstofunni. Hann sótti í hlýjuna því það logaði glatt í borðstofuofninum og notalegt skraf fólksins truflaði hann ekki, jafnvel skriðu barnabörnin milli fóta hans við leik á gólfinu.Við þessar aðstæður leið honum vel og úr penna hans flutu þýðingar, ritgerðir, greinar og jafnvel sálmar og ljóð að ógleymdri sjálfsævisögunni sem hann nefndi Sögukaflar af sjálfum mér. Eldri börnin sátu við borðstofuborðið með lexíur sínar og þegar þau strönduðu í lesefninu var afi spurður og svarið kom um hæl, það þurfti engar orðabækur í þeirri stofu.Matthías hafði alla ævi verið afkastamaður og árin 17 á Sigurhæðum voru engin undantekning. Hann var líkamlega vel á sig kominn og lýsir Einar H. Kvaran honum á þessa leið er hann rekst á skáldið í Reykjavík: „Þá gekk fram á okkur háleitur, vasklegur og prúðbúinn maður, þéttur á velli, svipmikill, stórnefjaður, með skegg í vöngunum“.

sh06_400

 Samkvæmt þessari lýsingu hefur skáldið verið vörpulegur maður en þeir, sem þekktu hann, muna best glaðlega, vingjarnlega viðmótið og það voru ekki grannir fingurgómar sem rétt var tyllt í hendi heldur var það heill, hlýr og mjúkur hrammur, sem greip um höndina, og hristi hana innilega. Þessi mynd af Matthíasi gerir okkur kleift að skilja vinsældir hans og lýðhylli sem hann naut hér á Akureyri. Hann hlaut góðar gáfur í vöggugjöf og minni hans var undravert og við lestur ljóða hans er helst að sjá að hann hafi kunnað eddukvæðin utanað og jafnvel heilu bækurnar. Hann fór ungur frá móður sinni, aðeins 11 ára gamall og var lítið í foreldrahúsum eftir það.  Hann saknaði alla ævi móðurhlýjunnar og ef til vill fann hann huggun í bókum þegar faðmur móðurinnar var víðs fjarri. Matthías hafði óstöðvandi menntaþrá og las mikið því bækur fundust fleiri við Breiðafjörð en víðast annars staða á landinu. Hann hafði ótrúlegt vald á íslenskri tungu og orðaforða sem hann aflaði sér við margvísleg störf. Hann var sjómaður á Breiðafirði, verslunarmaður í Flatey, leiðsögumaður erlendra ferðamanna, ritstjóri í Reykjavík og  prestur sunnan- og norðanlands, þessi störf færðu honum ótrúlegan orðaforða og fjölhæf braggáfa hans jós alla ævi af þessum brunni.

Matthías var víða á ferð í bænum eftir hann lét af prestsskap. Hann heimsótti sjúka og sorgbitna, var daglegur gestur á sjúkrahúsinu, sannur huggari en gladdist einnig með glöðum. Bjartsýni hans var undraverð því oft verða menn svartsýnir með aldrinum. Skáldið ástsæla setti svip á bæinn. Matthías var ekki Danahatari eins og margir samlandar hans á þessum árum.  Hann ferðaðist  mikið alla ævi og fór víða um lönd bæði austan hafs og vestan. Meðan hann bjó á Sigurhæðum fór hann nokkrar ferðir til Norðurlanda, þá síðustu árið 1912. Þegar styrjöldin braust út 1914 með öllum sínum ógnum var hann harmi sleginn og spyr í ljóði: „Er Satan laus?“ rétt eins og sá ljóti hafi komið þessu af stað. Mannvonska var ekki til í huga hans, hann vildi græða en ekki særa.

mcab0755

Þegar Matthías varð áttræður var honum sýndur mikill sómi einkum hér á Akureyri, þá var hann hress og gat farið allra sinna ferða við góðar aðstæður. Fimm árum síðar árið 1920 þá hálfníræður var hann snemma á fótum á afmælisdaginn. Hann fékk sér morgungöngu að gömlum sið en frábað sér öll veisluhöld. Honum bárust fjöldi heillaskeyta en hrærðastur varð hann þegar honum var tilkynnt að hann hefði verið kjörinn heiðursdoktor í guðfræði við Háskóla Íslands og einnig að forustumenn Akureyrarbæjar hefðu kosið hann sér að heiðursborgara. En skáldið ástsæla naut ekki lengi sigurlaunanna þvi 7 dögum síðar 18. nóvember fékk hann hægt andlát. Hann var jarðsunginn 4. desember að viðstöddu miklu fjölmenni.

mstae4217l

Matthías og Guðrún Runólfsdóttir, kona hans, höfðu verið í hjónabandi í 45 ár er hann lést. Guðrún lifði mann sinn í 3 ár, dó 6. nóvember 1923.Eftir lát Matthíasar birtust greinar og minningabrot í blöðum og tímaritum, margir greinahöfunda höfðu haft kynni af skáldinu og get ég ekki stillt mig um að lesa brot úr einu þeirra. Höfundur er Sigurður Nordal:„Ég sagði, að mér hefði fundizt mest til um síra Matthías Jochumsson af öllum mönnum, sem ég hefði kynnzt. Ég kynntist honum mest rúmu ári áður en hann dó. Hann var orðinn hrumur og sjóndapur, en skilningurinn var næmur, lundin glöð, hjartað heitt. Enginn maður hefur verið mér svo lifandi sönnun þess, að andinn er meira en efnið, lífið meira en dauðinn, að sálin á ekki að sofna, þegar hún er „rétt vöknuð“. Þessi sál var ekki blaktandi logi á nærri útbrunnu kertisskari. Hún minnti mig fremur á ungan hauk, í gömlu og hrörlegu hreiðri, albúinn til flugs“.                                                               

Halla Kristmunda Sigurðardóttir           

 

Heimildir: 

Óprentaðar heimildir.

Hskj. Ak.   Gjörðabók fasteignamatsnefndar í Akureyrarkaupstað. 1916.
Hskj. Ak.   Íbúaskrár Akureyrarkaupstaðar árin 1902 og 1903.
Hskj. Ak.   A-5/150. Skjalagögn um lóðir, lönd og húseignir. „Jónsbók l“ þ.e. skrá      yfir lóðir og hús á Akureyri til ársins 1933. Safnað af Jóni Sveinssyni fyrrum bæjarstjóra.    

Prentaðar heimildir.

Guðrún Þorsteinsdóttir. 1985. „Minningar um séra Matthías afa minn og heimili hans á   Akureyri.“ Morgunblaðið, 10. nóvember. Bls. 20-21.
Gunnar Kristjánsson. 1987. „Lífsviðhorf séra Matthíasar.“ Skírnir, tímarit Hins íslenzka bókmenntafélags, 161. ár, vor. Bls. 15-40.
Gunnlaugur Haraldsson. 2002. Guðfræðingatal 1847-2002. Prestafélag Íslands,   Reykjavík.
Matthías Jochumsson. 1956. Ljóðmæli Fyrri hluti, frumort ljóð. Ísafoldarprentsmiðja,      Reykjavík.
Matthías Jochumsson. 1959. Sögukaflar af sjálfum mér. Ísafoldarprentsmiðja,      Reykjavík.
Skáldið á Sigurhæðum. 1963. Safn ritgerða um þjóðskáldið Matthías Jochumsson.           Davíð Stefánsson tók saman. Bókaforlag Odds Björnssonar, Akureyri.