Fimmtudaginn 24. apríl verður sumrinu fagnað á Minjasafninu á Akureyri með gleði í hjarta. Börn frá 2-102 ára geta leikið við hvern sinn fingur, blásið burtu vetrinum með sápukúlum, leikið sér í búleik við Nonnahús eða tekið þátt í margvíslegum útileikjum og föndrað fyrir lífstíð. Svo ekki sé minnst á lummurnar og kakóið. Mátað sig við miðaldir og hitt furðuverur úr Tuma tímalausa. Ókeypis inn. Opið 14-16.
Gestir geta mátað sig við miðaldir því Miðaldahópur Handraðans verður með líflega kynningu á starfi hópsins og Gásadögum. Þér er boðið að skoða og prófa hluti tengda starfinu á Gásum, t.d. máta sig við sverð og hringjabrynju, skoðað mataráhöld, fatnað og ýmislegt fleira. Hvernig skyldi líf miðaldafólks vera í dag?
Á safninu og úti í Minjasafnsgarðinum verður hægt að bregða á leik eða taka þátt í sumarföndri. Ef sumarhoppið grípur þig eru strigapokar nærtækir við kirkjuna og tilvalið að fara í kapp í kringum kirkjuna.Furðuverur t.d. dísir og geithafrar úr söngleiknum Tuma tímalausa verða á svæðinu um kl. 15 og syngja nokkur lög úr þessum bráð skemmtilega söngleik.
Sannarlega eitt og annað fyrir fjölskyldur og börn á öllum aldri að skemmta sér við.
Í sumargjöf er ókeypis inn á safnið. Dagskráin hefst kl. 14 og stendur til 16.
Það er starfsfólk Minjasafnsins á Akureyri og Stoðvinafélag safnsins sem standa að sumargleði á sumardaginn fyrsta.
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30