Nítjándualdar andi svífur yfir vötnum í Minjasafnskirkjunni sunnudaginn 29. apríl nk. kl. 14 en þá verður sungin messa í nítjándualdar stíl. Messuform, sálmar og tón verður sótt í heimildir frá seinni hluta 19. aldar. Kammerkórinn-Hymnodia leiðir sönginn. Organisti er Eyþór Ingi Jónsson og prestur sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson.
Prestur mun klæðast gömlum messuklæðum, kórfélagar, organisti og meðhjálpari munu sömuleiðis klæðast íslenskum búningum til að nálgast andblæ þessa tíma. Kirkjugestir eru hvattir til að gera slíkt hið sama. Gjarnan má taka með sér neftóbakspontur svo hægt verði að taka hraustlega í nefið hvort heldur er undir sálmasöng eða ræðu prestsins. Að messu lokinni stendur Zontaklúbbur Akureyrar fyrir vöfflukaffi í Zontasalnum í Aðalstræti 54. Kaffið kostar 500 krónur fyrir manninn. Allir velkomnir.
Nítjándualdarmessan er samstarfsverkefni Minjasafnsins á Akureyri og Akureyrarkirkju og er hluti af dagskrá Kirkjulistaviku.
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30