Andi 1962 verður allsráðandi á Minjasafninu á Akureyri n.k. laugardag þegar Minjasafnið á Akureyri fagnar 50 ára afmæli sínu. Hinn aldagamli garður safnsins fyllist tónum og fiðringur færist í fæturna. Lúðrasveit Tónlistarskólans á Akureyri blæs af krafti þangað til Danshljómsveit Snorra Guðvarðar stígur á svið og framkallar tóna frá 1962. Dansað verður um allan garð og verða hinir fótafimu dansarar Vefarans þar í fararbroddi en öllum er frjálst að stíga sporið í garðinum. Ef hitinn og dansæðið verður til að draga máttinn úr þá verða veitingar í anda Akureyri 1962 á boðstólum. Valash, Conga og Bragakaffið renna ljúflega í gesti og gangandi. Til að mörk nútíðar og fortíðar verði enn óskýrari verða bílar frá Fornbíladeild Bílaklúbbs Akureyrar til sýnis á flötinni fyrir neðan safnið auk þess sem starfsfólk og þátttakendur í afmælinu verða klædd í samræmi við tískuna 1962.