03.06.2012
Afmælið heldur áfram á sunnudeginum og verður aldeilis sögulegt. Þá er sannkallað afmælisboð með tilheyrandi kökuhlaðborði, sem 100 ára afmælisbarnið Kristjánsbakarí býður upp á. Heimir Bjarni Ingimarsson fær alla krakka til að syngja og tralla í garðinum og forvitnilegar persónur skjóta upp kollinum. Ekki það að gestir safnsins séu ekki forvitnilegir en hver hefur hitt sr. Matthías Jochumsson eða Vilhelmínu Lever, kjarnakonuna sem fyrsta allra kvenna kaus í kosningum. Matthías og Vilhelmína verða í eigin persónu í Minjasafnsgarðinum. Ekkert er fegurra en söngur karlakórs og tvöfaldur kvartett Karlakórs Akureyrar-Geysis tekur öllu fram. Nema þá ef fornbílar Bílaklúbbs Akureyrar gætu sungið en Fornbíladeildin verður með bílasýningu og kemur akandi og verða flauturnar þandar. Fyrir þá sem vilja taka sér hlé frá garðveislunni er um að gera að bregða sér inn í safnahúsin og skoða afmælissýningu safnsins Manstu... Akureyri í myndum. Þar gefur að líta þennan 150 ára gamla bæ frá ýmsum sjónarhornum á ólíkum tímum. Einnig er hægt að setjast á bíóbekkinn og sjá myndasyrpu frá Kvikmyndasafni Íslands, Akureyri 1907-1970.Það verður því sannkölluð afmælishátíð 2. og 3. júní frá 14-16 báða dagana og þér er boðið!