Laugardaginn 4. febrúar kl. 12 verður stofnað Barnabókasetur – rannsóknasetur um barnabókmenntir og lestur barna við Háskólann á Akureyri. Að setrinu standa auk háskólans Amtsbókasafnið og Nonnahús. Þá eiga Rithöfundasamband Íslands, Samtök barna- og unglingabókahöfunda, IBBY, Félag fagfólks á skólasöfnum aðild að setrinu. Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra opnar sýninguna „Yndislestur æsku minnar“ – fyrsta verkefni setursins. Þar sýnir þekkt fólk eftirlætisbarnabókina sína og lýsir því hvers vegna hún er minnisstæð. Dagskráin er fjölskylduvæn og samanstendur af stuttum ávörpum um bernskulestur og upplestri barna og rithöfunda. Boðið verður upp á grjónagraut og lestur rithöfunda og barna úr barnabókum.Viljayfirlýsing um stofnun Barnabókasetursins var undirrituð í HA á degi íslenskrar tungu sl. Þörfin fyrir setur sem einblínir á bóklestur og lestrarmenningu barna hefur þó lengi verið ljós. Ótal rannsóknir hafa sýnt minnkandi áhuga íslenskra barna og unglinga á bóklestri undanfarin ár og áratugi. Má til dæmis nefna langtímarannsókn Þorbjörns Broddasonar frá 1968-, evrópsku ESPAD rannsóknina, fjölþjóðlegu PISA rannsóknina og Ungt fólk á Íslandi. Áhugi barna á lestri hefur víðar dregist saman en hérlendis en íslensk börn eru hins vegar undir meðaltali og standa sig í kjölfarið verr í lesskilningi en börn í þeim löndum sem við oftast berum okkur saman við. Stofnendur setursins telja mikilvægt að stunda rannsóknir á þessu sviði. Þeir telja líka tímabært að nýta þær rannsóknir sem gerðar hafa verið til að fræða fólk og snúa vörn í sókn. Markmið Barnabóksetursins eru því eftirfarandi:
a) Að stunda rannsóknir og fræðslu um barnabókmenntir og lestur á Íslandi.
b) Að hvetja til og skapa aðstöðu til rannsókna á barnabókmenntum.
c) Að miðla þekkingu og upplýsingum um barnabókmenntir á Íslandi og stuðla að sýnileika þeirra í samfélaginu.
d) Að vinna að framgangi lestrarmenningar meðal barna og ungmenna á Íslandi.
e) Að efla og treysta innlend og erlend tengsl og taka þátt í alþjóðlegri þekkingarsköpun á fræðasviðinu.
f) Að standa fyrir málþingum og stuðla að útgáfu fræðilegs efnis á sviðinu.