Hin árlega draugaganga Minjasafnsins og Leikfélags Akureyrar var sú fjölmennasta í sögunni. Áætlað er að um 800 þáttakendur (þessa heims) hafi gengið út Aðalstrætið undir leiðsögn Þórs Sigurðarsonar.

Göngunni lauk í Samkomuhúsinu þar sem Þór og Þráinn Karlsson sögðu draugasögur í myrkum salnum, og færri komust að en vildu því sæti og stæði dugðu ekki til. Í samvinnu við lögregluna var bílaumferð um Innbæinn takmörkuð, og starfsmenn Norðurorku sáu til þess að götulýsing truflaði ekki draugastemminguna. Íbúar í Aðalstræti, Hafnarstræti og Lækjargötu höfðu slökkt á rafljósum. Hrollvekjandi óp bárust úr myrkrinu og annarlegar verur sýndu sig þegar minnst vonum varði. Í Innbænum hafa ýmsir undarlegir atburðir átt sér stað þau 450 ár sem byggðin hefur staðið á þessum stað, og því ekki að undra þótt margt sé á sveimi. Auglýstur óperusöngvari kom ekki fram á tilsettum tíma. Hvort það var af vofeiflegum ástæðum eða ekki skal ekkert fullyrt um. Draugagangan er orðin árviss viðburður. Minjasafnið stendur fyrir fjölbreyttri dagskrá utan veggja safnsins, sem almenningur kann vel að meta. Dagskrá Minjasafnsins tengist á einhvern hátt sögu og þjóðháttum, sem er í samræmi við starfsemi þess. Sögur af reimleikum og draugum eru þjóðlegur fróðleikur sem flestir hafa áhuga á. Þannig hófust draugavökur Minjasafnsins með því að safnað var saman sögum af draugum og forynjum af Eyjafjarðarsvæðinu.Fyrstu draugavökurnar fóru fram í sjálfu Minjasafninu. Sögumaður lék aðalhlutverkið og hélt athygli áheyrenda, meðan félagar úr Cirkus Atlantis göldruðu fram áhrifshljóð. Um sextíu áheyrendur fengu pláss í Akureyrarsýningu safnsins. Þegar safnið tók ekki lengur við var viðburðurinn fluttur út undir bert loft. Innbærinn reyndist góður vettvangur fyrir flutning draugasagna. Sögumaður bar dagskrána uppi, en Leikklúbburinn Saga ásamt ýmsum öðrum tóku þátt í að skapa stemminguna. Leikfélag Akureyrar gekk til liðs við Minjasafnið, enda hefur það yfir að ráða húsnæði og atvinnufólki.  Samkomuhúsið rúmaði aðeins hluta af þáttakendum í draugagöngunni síðasta laugardag. Gangan er með öðrum orðum vaxin út úr Samkomuhúsinu og sama má segja um fyrirkomulag göngunnar, það þarf að endurbæta ef draugagangan verður endurtekin. Sögumaður á erfitt með að halda athygli mörg hundruð þáttakenda í göngu, hversu þróttmikil sem frásögnin er, og það þótt fjárfest hafi verið í nýjum hljómflutningstækjum fyrir tilefnið!Þáttakan er til marks um mikinn áhuga, og verðugt verkefni er framundan, að finna réttu leiðina til að mæta þeim áhuga. Að lokum er öllum þeim sem þátt tóku í Draugagöngunni þakkað.  

Guðrún M. Kristinsdóttir safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri.