Menningarminjadagur Evrópu 2007 verður haldinn föstudaginn 7. september til að vekja athygli almennings á gildi menningararfsins og að skapa vettvang til að almenningur geti kynnst sögulegu umhverfi sínu.Á Akureyri kynnir Haraldur Þór Egilsson sagnfræðingur sögu Akureyrarkirkju og gripi hennar milli 17:30 og 19:00.

Menningarminjadagurinn hefur verið haldinn hér á landi frá árinu 1997 fyrst í umsjón Þjóðminjasafns en frá tilurð Fornleifaverndar ríkisins síðla árs 2001 hefur stofnunin haft umsjón með deginum hérlendis. Í ár er Menningarminjadagurinn haldinn í samvinnu Fornleifaverndar ríkisins og Húsafriðunarnefndar ríkisins. Þema þessa árs er gömul híbýli og íbúar þeirra. Að þessu sinni verður boðið upp á leiðsögn og fyrirlestra á sjö stöðum víðsvegar um landið.

Dagskráin er sem hér segir:

Skálarústir og manngerðir hellar í landi Efra-Hvols í Ragnárþingi eystra. Kristinn Magnússon deildarstjóri kynnir staðinn kl. 17:00. Safnast verður saman við afleggjaran að Þórunúpi (ekið af vegi nr. 262) þar sem hann liggur framhjá hellunum um 1 km innan við bæjarhúsin á Efra-Hvoli.

Laugarvatnshellar eða Reyðarmúli við Gjábakkaveg á Lyngdalsheiði, ofan Laugarvatnsvalla, milli Þingvalla og Laugarvatns. Agnes Stefánsdóttir deildarstjóri rekur sögu hellanna kl. 17.00.

Útskálakirkja í Garði. Gunnar Bollason verkefnisstjóri rekur sögu Útskála vítt og breitt kl. 17:00. Að erindi loknu er einnig boðið upp á stutta göngu um kirkjugarðinn sem geymir óvenjulegan fjölda merkra minningarmarka.

Bólstaður við Vaðilshöfða í landi Úlfarsfells í Álftafirði á Snæfellsnesi, rétt neðan við brúna yfir Úlfarsfellsá. Magnús A. Sigurðsson minjavörður Vesturlands og Vestfjarða rekur sögu staðarins kl. 18:00

Keldudalur á Hegranesi í Skagafirði. Uppgröftur á eldri byggingum staðarins og saga hans. Þór Hjaltalín minjavörður Norðurlands vestra og Guðný Zoëga fornleifafræðingur hjá Byggðasafni Skagfirðinga leiða gesti um staðinn kl. 10:00.

Akureyrarkirkja. Haraldur Þór Egilsson sagnfræðingur kynnir sögu kirkjunnar og gripi hennar milli 17:30 og 19:00.

Þá skal athygli vakin á því að á fimmtudeginum 6. september kl. 18:00 mun Inga Sóley Kristjönudóttir minjavörður Austurlands kynna Krakagerði í Hróarstungu í landi Vífilsstaða en það er fornt eyðibýli skammt frá Krakalækjarþingstað.