Færri komust að en vildu á draugalegri kvöldvöku sem haldin var í Gamla bænum Laufási 15. nóvember. 37 manns hlýddu á Þór Sigurðsson segja sögur af sinni alkunnu snilld. Síðastliðið fimmtudagskvöld 15. nóv. stóð Minjasafnið á Akureyri fyrir baðstofukvöldi í Gamla bænum í Laufási. Þór Sigurðarson, safnvörður Minjasafnins, sagði þjóðlegar draugasögur í um eina klukkustund. Fólk sat í baðstofunni og hlustaði andaktugt og hafði gaman af enda umhverfið einstakt. Gamli bærinn er ákjósanlegur vettvangur fyrir draugasögur þar sem fólk þarf fyrst að fara hin löngu göng inn og upp í baðstofuna, sitja á rúmum og hlíða á draugasögurnar rétt eins og fólk gerði fyrr á tíðum. Í þessum vistarverum varð fólk drauganna vart, í skotum og innan við dimmar gáttir skálanna, enda fjölluðu þær sögur er sagðar voru um atburði er báru við er fólk átti leið um göngin og eins er draugarnir sóttu alla leið inn í baðstofurnar. Göngin í Laufási voru reyndar bjartari en fólk átti að venjast á fyrri tíð, en í baðstofunni logaði einungis á nokkrum kertum. Mikill áhugi var hjá fólki að upplifa þessa stemningu í baðstofunni og færri komust að en vildu. Sætapláss var takmarkað og því þurftu menn að hafa hraðar hendur til að panta sér sæti og gaman að sjá hversu margir brugðust fljótt við. Veitingarnar í gamla presthúsinu runnu ljúflega niður hjá gestunum áður en haldið var heim á ný og góður rómur var gerður af þessaru nýjung Minjasafnins, sem vonandi verður árlegur viðburður á köldu nóvemberkvöldi héðan af.