Hátt í 100 Gásverjar unnu að handverki og daglegum störfum. Leiðsögn um fornleifasvæðið var afar vinsæl, enda einstakt að geta gengið um fornan verslunarstað þar sem sagan drýpur af hverju strái og enda svo gönguna á miðöldum. Í Gásakaupstað gátu gestir nýtt öll skynfærin til að draga upp ljóslifandi mynd af þessum helsta verslunarstað Norðurlands á miðöldum og upplifa söguna að hluta á eigin skinni. Þar var hægt að fræðast um brennistein og hreinsun hans og sjá bardagamenn etja kappi hver við annan, Gásverja bregða á leik og sinna daglegum störfum, og eldsmiðinn berja járnið í föstum takti, auk þess að heyra ljúfa tóna líða um staðinn. Ungir gestir og foreldrar þeirra tóku þátt í grjótkasti, munduðu boga og skutu örvum og sáu ýmislegt handverk, s.s. jurtalitun á bandi, tálgun, vattarsaum og vefnað, auk þess sem vörur skiptu um eigendur gegn gjaldi eða í skiptum.
Verkefnið stendur nú á tímamótum þar sem ekki er víst að haldnir verði Miðaldadagar að ári liðnu. Eigendur sjálfseignarstofnunarinnar ráða nú ráðum sínum vegna þessa og svara er að vænta síðar á þessu ári. Það er von stjórnar að þetta verkefni verði ekki lagt niður og fyrir því eru margar ástæður, segir Kristín Sóley Björnsdóttir, formaður stjórnar Gásakaupstaðar ses. Afar mikilvæg verkkunnátta frá miðöldum hefur orðið til hjá áhugafólki, Gásverjum, á svæðinu sem og fólki utan svæðis. Sá áhugi hefur m.a. gefið verkefninu og gestum Miðaldadaga þá „leikmuni“ sem þarf til að gera sviðsmynd þeirra sem raunverulegasta og tilraunir til að líkja eftir lífinu á þessum tíma hafa á stundum stutt eða hrakið þær hugmyndir sem menn höfðu um verkkunnáttu þess tíma. Verið er að nýta niðurstöður fornleifarannsókna á Gásum sem og sagnfræðilegar heimildir með lifandi hætti til að vekja athygli á þessum mikla og einstaka stað sem Gásir eru. Þannig er reynt að gera unga sem aldna meðvitaðari um þá sögu sem býr í túnfætinum, því hún er mikilvæg í bæði innlendu og erlendu samhengi, og okkur öllum hollt að þekkja okkar nánasta umhverfi eins vel og við getum því þannig styrkjum við sjálfsmynd okkar sem Eyfirðingar, Íslendingar og eyþjóð, segir Kristín Sóley jafnframt.
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30