Það hefði hugsanlega verið nær lagi að nefna þennan dagskrárlið "Heildina í ljóðum Davíðs", því hið mótsagnakennda í ljóðum hans er einmitt það sem gerir þau heil.
Þegar hann lýsir hinni ævintýralegu Tínu Rondóní með þessum orðum: "Hálf ertu heilagur andi, hálf ertu mold", er hann að vísa til þess að hún er heil, hún er eins og hann, mannleg, breisk hugsjónavera. Um hana segir hann líka: "Þú býrð yfir barnsins tryggð, höggormsins hrekkjum og slægð." Það er ekki bara hún sem er mótsagnakennd og því heil, það er eitt einkennið á ljóðum Davíðs. Hann skapar í þeim flóknar, mótsagnakenndar persónur og aðstæður, hvort sem hann vísar í þeim inn á við eða út.
Til skáldskapargyðjunnar, lífsförunauts hans, kallar hann:
Tryll þú hug minn töfrasýnum,
tendra eld á vegum mínum,
unz ég hlýt þá náð að nema
nið frá vötnum þínum.
Davíð hefur verið kallaður maður mótsagnanna og sjálfur segir hann í bréfi til vinar síns:
".. e.t.v. hefur náttúran gefið mér meiri ástríður en sumum öðrum .. . Ég er þó á engan hátt að afsaka mig, hvorki fyrir öfgar mínar í ljóði né lífi. ... Hvítt og svart — það eru mínir litir."
Um mótsögnina og heildina í ljóðum og lífi skáldsins, fjöllum við í fimmtudagsstundinni 30. júlí.
Umsjón með dagskránni hefur Valgerður H. Bjarnadóttir, húsfreyja í Davíðshúsi.
Húsið er opið frá kl. 13 til 17 og tilvalið að nýta tækifærið til að skoða heimili Davíðs og drekka í sig fegurðina sem þar býr.
Næstu viðburðir:
v Fimmtudagur 6. ágúst
"Við erum sungnar í sekt og bann" - Rödd konunnar í ljóðum Davíðs
v Fimmtudagur 13. ágúst
Gef mér ást til alls hins góða - trúin í ljóðum Davíðs
Aðgangseyrir kr. 1.200.- Sjá nánar á www.minjasafnid.is
Viðburðir í Davíðshúsi 2015 eru hluti af Listasumri á Akureyri www.listasumar.is
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30