Hinn forni verslunarstaður á Gásum vaknar til lífsins helgina 21. og 22. júlí. Minjasafnið á Akureyri, Hörgárbyggð og Akureyrarstofa blása þá lífi í Gásakaupstað með aðstoð innlendra og erlendra kaupmanna og handverksfólks. Markaðurinn verður opnaður kl. 10 laugardaginn 21. júlí með því að Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri Akureyrar, setur kauptíðina að fornum sið og Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi Ferðamálastofu, segir nokkur orð. Eftir það gefst gestum miðaldamarkaðarins kostur á því að upplifa starfshætti og menningu síðmiðalda.
Innlent og erlent handverksfólk hefur unnið hörðum höndum í vetur svo markaðurinn verði enn meira spennandi heim að sækja nú en á síðasta ári. Víðsvegar um kaupstaðinn mun eyfirskt og danskt handverksfólk, íklætt miðaldaklæðnaði, vinna að leður- og vattarsaumi, ullarþæfingu, vefnaði og tálgun. Miðaldatónlist mun hljóma um kaupstaðinn, brennisteinn úr Námafjalli verður hreinsaður og hleypt verður af fallbyssu af þeirri gerð sem tíðkaðist í Evrópu á miðöldum. Hugaðir gestir geta reynt sig við bogfimi og steinakast og fylgst með riddurunum, brynjuðum að erlendum sið, skylmast. Kaupmennirnir og handverksfólkið kemur að sjálfsögðu hlaðið vörum í kaupstaðinn og því viðbúið að perlur, gler, skart, sverð, hnífar, skeiðar, litað band og fleiri skemmtilegir hlutir ættaðir frá miðöldum skipti um eigendur.
Greiðslukort tíðkuðust hins vegar vitaskuld ekki á miðöldum og því eru gestir beðnir um að hafa með sér reiðufé hyggist þeir versla á markaðnum. Friðrik V mun, í samvinnu við Norðlenska, elda súpu í miðaldastíl sem verður seld gegn vægu gjaldi til styrktar Gásverkefninu. Auk þess verður boðið uppá leiðsögn báða dagana um þennan merka sögustað. Kauptíðinni lýkur svo á sunnudaginn með gríðarmiklu fallbyssuskoti sem sendiherra Dana á Íslandi, Lasse Reimann, mun hleypa af.
Aðgangseyrir er 1000 kr. á fullorðinn, 13 ára og yngri borga 250 kr en fyrir þá sem eru minni en miðaldasverð er enginn aðganseyrir. Markaðurinn verður opinn frá kl. 10-16 báða dagana. Síðustu tvö ár hefur Ferðamálastofa veitt Gásaverkefninu væna styrki sem nýttir hafa verið til þess að koma upp salernisaðstöðu á Gásum. Salernin eru nú komin á sinn stað og gera gestum kleift að staldra lengur við á svæðinu og njóta miðaldamenningarinnar og einstakrar kyrrðar og náttúru á svæðinu. Dagskrá markaðarins í heild sinni má finna á www.gasir.is
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30