Krakkar af leikskólanum Flúðum
Krakkar af leikskólanum Flúðum
Jólavaka Minjasafnins er afar vel sótt í ár.  Um 1100 krakkar á bæði leikskóla- og grunnskólaaldri koma og fræðast um ljósfæri, jólatré, jólakort, jólakveðjur, kenjar jólasveina og síðast en ekki síst afmælisbarnið Nonna og ævintýri hans. Oft hefur verið margt um manninn á jólavöku Minjasafnsins en aldrei eins og nú og gleðin og áhuginn skín úr andliti hvers barns. Morgnarnir eru því annasamir á safninu þessa daga fyrir jólafrí.  

Grunnskólabörn í 2. 4. og 6. bekk velta fyrir sér ásamt safnkennara hver séu nauðsynleg jólaverk nútíma Íslendings og berum þau saman við jólundirbúning í byrjun síðustu aldar. Munir tengdir jólum verða skoðaðir, hlustað á sögur og lesið úr sendibréfum.   Í sal Zontakvenna í Aðalstræti 54 (við hliðina á Minjasafnskirkjunni) verður unnið með jólakorta- og sendibréfa þema. Við kynnumst þessari skemmtilegu og persónulegu hefð og búum til jólakort ætlað vini eða nákomnum ættingja.  

Leikskólabörn hins vegar velta fyrir sér jólundirbúningi í „gamla daga“ og kynnast kostum og kenjum jólasveina. Munir tengdir jólum verða skoðaðir, hlustað á sögur og sungið. Boðið er upp á að hengja jólaskraut sem krakkarnir hafa búið til í leikskólanum á gamla jólatréð í Minjasafnskirkjunni. Skrautið verður síðan hengt upp í kirkjunni og verður skreyting hennar um hátíðirnar. Í Nonnahúsi er sögustund og piparkökuveisla.