Margt var um manninn í Gamla bænum Laufási í gær þar sem hátt í 200 manns upplifði undirbúning jólanna í gamla daga. Kveikt var uppí hlóðum, hitað kaffi, laufabrauð var skorið og steikt og jólakertin steypt. Gestir fengu að bragða á hangikjöti, hrossasperlum, magál og brigukollum í boði Kjarnafæðis. Jólagrauturinn sauð og jólaölið bragðaðist vel. Jólasveinninn bankaði uppá og vakti kátínu ekki síst hjá yngstu kynslóðinni. Skemmtilegur markaður var í skálanum og fullt var út úr dyrum í kirkjunni þar sem barnakórar frá Svalbarðsströnd og Grenivík sungu jólalög undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur og Sigríðar Huldu Arnardóttur. Eva Margrét spilaði ljúfa tóna og sr Bolli Pétur Bollason stjórnaði aðventustundinni. Við þökkum öllum þeim sem komu! Sérstakir þakkir fá einnig velunnarar Laufáss og félagar úr Handraðanum fyrir vel unnin störf þennan góða dag.