Nýlega fékk Hörður Geirsson það áhugaverða verkefni að athuga hvort hægt væri að framkalla 10 filmur sem höfðu verið teknar á Instamatic myndavél árið 1969. Hörður burstaði rykið af filmuframköllunar þekkingunni, því það voru sennilega yfir 20 ár síðan hann framkallaði svart/hvíta filmu síðast. Síðan var að finna til efnin sem hægt væri að nota til verksins og leita uppi viðbótarefni, því filmur sem hafa verið svona lengi í hulstrinu fá á sig slikju eða slör, sem hægt er að losna við með því að nota Potasium Bromite í framkallarann (búin er til 10% upplausn með því að setja 10 gr. út í 100 ml. vatns og svo 20 ml. af upplausninni í framkallarann). Þá var bara að hefjast handa.
Þegar Hörður opnaði D-76R Kodak framkallarann var hann orðinn heldur brúnn og ákaflega illa gekk að fá hann til að leysast upp í 600 ml. af vatni (notaði 77 gr.). Þegar ég hafði hitað hann upp í 40°C og kælt aftur niður í 20°C var hann eins og ljóst kaffi á litinn en ekki glær eins og til var ætlast. Hörður lét samt til leiðast að prófa hann á fyrstu filmunni. Þá var að blanda 600ml + 38ml af stoppbaðinu, og síðan 125ml af Ilford Rapid fixer til að búa til 600ml af fixer.
Framkallarinn lá 7 mínútur á filmunni, stoppbaðið varði í 30 sekondur og fixerinn í 2 mínútur. Þá var hún skoluð í 10 mínútur og síðan þvegin upp úr Photoflo og hengt upp til þerris.
Framköllunin tókst framar vonum. Filmurnar voru klipptar niður og settar í þrjú plöst klukkutíma síðar. Þetta voru 9 stykki af 12 mynda filmum og ein 20 mynda. Næsta skref var að mynda flimublöðin og snúa við í forritinu Lightroom, þannig að hægt væri að skoða og greina hvað væri á filmunum.
Fljótlega komst Hörður að því að myndatakan fór fram 17. júní árið 1969 því myndir voru af hátíðarhöldum á Akureyrarvelli þar sem ártalið sést. Ýmislegt mátti sjá á myndunum, börn að leik, bæjarumhverfi í mótun og ýmsa bæjarbúa. Þarna mátti sjá myndir af Stefáni Hauk Jakobssyni með ótal verðlaunagripi sem hann fékk fyrir golfleik.
Myndirnar eru nú í varðveislu safnsins en fjölskyldan fékk stafræn afrit af öllum 70 myndunum. „Það er ekkert handverk lengur eftir þegar gerðar eru ljósmyndir í dag svo þetta var frábært afturhvarf til fortíðar síðustu aldar.“ Segir Hörður hæst ánægður með útkomuna.
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30