Allir eiga minningar úr búðinni. Ekki síst þeir sem muna hverfisverslanir og kjörbúðir, svo ekki sé minnst á sjoppur og hangsið sem þeim fylgdi. Í eina tíð voru slíkar verslanir nánast á hverju götuhorni, jafnvel var matvörurúta í einu hverfi Akureyrar.
Var keypt kók um helgar á þínu heimili? Jafnvel ekki fyrir hverja einustu helgi? Manstu þegar ávextir voru ekki jafn sjálfsagðir og nú. Manstu þegar sælgæti var keypt á tyllidögum og var minna í sniðum, áður en lítið varð stórt og stórt stærra? Þegar kaupmaðurinn á horninu var ígildi kreditkorts, því hjá flestum var hægt að skrifa þær vörur sem teknar voru út. Það var í sjálfu sér söguleg arfleif frá tíma einokunarverslunarinnar.
Á sýningunni Hér stóð búð gefur að líta ljósmyndir frá ýmsum tímum sem tengjast matvörubúðum á Akureyri. Sýningin lýsir í senn þróun hverfisverslana í stórmarkaði en fangar ekki síður tíðarandann, þegar hjartslátt hverfisins mátti finna í kjörbúðinni.
Sýningin er unnin úr ljósmyndasafni Minjasafnsins, sem telur yfir þrjár milljónir mynda. Þó ljósmyndasafnið sé stórt er þar ekki allt að finna sem verðmæti væri í að varðveita. Því væri fengur fyrir safnið að vita hvort úti í samfélaginu leynist ekki myndir sem tengjast þessum skemmtilega þætti menningarinnar sem hverfisverslanir voru.
Annar megin þáttur sýningarinnar eru sögurnar sem leynast þarna úti, minningarnar sem tengjast búðunum, ferðinni í búðina með minnismiðann eða innkaupanetið, afganginn sem mátti kaupa nammi fyrir, kannski í fyrsta sinn. Fannstu ástina í kjörbúðinni eða sjoppunni? Við viljum líka fá að heyra sögur þeirra sem unnu í búðunum, stóðu fyrir aftan búðarborðið, fylltu á hillurnar, sendust með vörurnar.
Segðu okkur þína sögu. Starfsfólk safnsins verður til staðar á sýningunni en einnig verður opnuð facebook síðan Hér stóð búð … á Akureyri þar sem hægt verður að deila minningum og myndum. Hver veit nema þín mynd rati á sýninguna? Einnig er hægt að senda okkur sögur og myndir á netfangið minjasafnid@minjasfnid.is
Á sýningunni verður einnig hægt að fara í búðarleik í Litlu-Kjörbúðinni, bregða sér á bakvið búðarborðið eða kaupa inn fyrir helgina. Athugið ekki verður selt út um lúguna.
Sýningin markar upphaf afmælisárs Minjasafnsins á Akureyri sem fagnar 60 ára afmæli á árinu með sýningum bæði innan veggja safnsins og utan, viðburðum, ljóðahátíð, tónleikum og menningarsmiðjum fyrir börn og ungmenni. Fylgist með frá byrjun.
Í tilefni afmælisársins er býður safnið upp á Afmæliskort safnsins sem gildir allt árið og veitir aðgang að fimm söfnum Minjasafninu á Akureyri, Nonnahúsi, Leikfangahúsinu, Davíðshúsi og Laufási. Verðið er vandræðilega lágt eða kr. 2000 fyrir eldri en 18 ára, 1000 kr fyrir heldri borgara en ókeypis er fyrir öryrkja.
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30