Minjasafnið á Akureyri og Hjörleifur Stefánsson arkitekt vinna nú að húsakönnun í Innbænum og Fjörunni vegna deiliskipulagsgerðar þessa bæjarhluta. Húsakönnunin byggir að hluta til á eldri húsakönnun sem Hjörleifur vann fyrir Skipulagsdeild Akureyrarbæjar árið 1982 og gefin var út í ritinu Akureyri, Fjaran og Innbærinn byggingarsaga árið 1986. Það rit er löngu uppselt. Áætlað er að húsakönnuninni verði lokið vorið 2011. Niðurstöðurnar verða aðgengilegar í skýrsluformi á heimasíðum Akureyrarbæjar og Minjasafnsins á Akureyri. Nánari upplýsingar um húsakönnunina  gefur Hanna Rósa Sveinsdóttir á Minjasafninu á Akureyri í s. 462 4162 eða á hanna@minjasafnid.is

Á athugunarsvæðinu eru um 100 hús og það nær til allra húsa við Aðalstræti og Hafnarstræti norður að Hafnarstræti 67 auk húsa við Lækjargötu og Spítalaveg og nýrri húsa við Naustafjöru, Duggufjöru og Búðarfjöru.

Húsakönnunin fer þannig fram að safnað er heimildum um byggingarsögu svæðisins og hvers húss fyrir sig og þær færðar inn í sérstakan gagnagrunn, svokallaða húsaskrá. Jafnframt því verður allt svæðið og hvert hús ljósmyndað. Að því loknu verður lagt mat á varðveislugildi húsa og götumynda sem síðan er lagt til grundvallar í nýju deiliskipulagi sem arkitektastofan Kollgáta er að vinna.