Frásögn Ingólfs Benediktssonar (1908-1990).
Birt með leyfi Björns Ingólfssonar.
Þegar jólin nálguðust var Bjössi að smíða eitthvað á loftskörinni. Kom þar fyrir klauf úr eik til að nota við heflun. Þetta negldi hann í gólfið og svo stóð hann í tröppu í mátulegri hæð í stiganum og það sem hann var að hefla rak hann inn í klaufina. Ég var forvitinn að vita hvað hann væri að smíða en hann gaf ekkert upp um það. Þarna kom sívöl stöng, talsvert löng, nokkuð sver í annan endann en mjókkaði í hinn, svona eins og litli fingurinn á mér. Þetta skóf hann og pússaði með glerbroti og síðan með sandpappír þar til allt var orðið mjúkt og fínt. Síðan boraði hann í þessa stöng mörg göt á ská frá þykkri enda, þá smíðaði hann margar spýtur mislangar í götin, lengstar í sverari endann. Svo bjó hann til þykkan, ferkantaðan klossa með gati í miðju. Þar í kom sverari endi sívölu stangarinnar, límdur með snikkaralími, síðan rak hann smærri spýturnar í götin á stönginni og límdi, lengstar neðst en smá styttust um leið og kom ofar og stöngin mjókkaði. Og þá rann upp fyrir mér að þarna var komið tré. Ég hafði bara heyrt talað um jólatré, þetta var það fyrsta sem ég hafði séð. Bjössi átti ýmislegt í fórum sínum, meðal annars teygjupappír, grænan að lit, og nú klippti hann þennan pappír í lengjur og vafði honum um allt tréð og teygði á svo allt féll vel að stofni og greinum og sáust hvergi samskeyti. Þetta varð eins og lifandi tré. Mikið dáðist ég að handarverkinu hans Bjössa. Mikið væri gaman ef ég yrði svona flinkur þegar ég yrði stór. Jólin voru á næsta leiti. Mamma bakaði voða fínar kökur af öllum gerðum, sódaköku, marmaraköku, jólaköku, smákökur, hálfmána og tertur og angan af öllu fyllti bæinn. Og svo var laufabrauðið og kleinurnar. Bjössi var orðinn snillingur að skera laufabrauð. Þar voru nöfn allra, ártal og hús sem í stóð „jól“. Mamma breiddi út brauðið, hvolfdi diski yfir og skar í kring með kleinujárni. Síðan voru kökurnar settar á hvít lök sem breidd voru yfir rúmin. Aðrir sátu hér og þar með fjalir á hnjánum og skáru kökurnar. Pabbi sauð brauðið eftir kúnstarinnar reglum. Allt húsið var þvegið og lagað til í hverjum kima. Klossinn var fjarlægður af loftskörinni og allir hlutir á framloftinu færðir í röð og reglu út undir súðina svo þarna var mikið og hvítskúrað pláss. Ingólfur nafni minn stóð í lagfæringum og hreingerningum og gerði það á sinn snyrtilega hátt, meira að segja fjósið sópaði hann og prýddi. Bjössi bjó til kertastjaka á borðið og setti þar í stórt kerti. Bjössi og Siggi bjuggu til músastiga marglita og festu upp kompunni og í stofunni. Þeir bjuggu líka til hjartalaga poka sem brugðnir voru úr marglitum pappír og hald límt á. Ég fékk líka að reyna. Svo bjuggu þeir til kramarhús úr þunnum pappa og var blár, rauður og gulur glanspappír límdur utan á, kannski lítil mynd líka til að prýða. Þá voru karfir líka úr þunnum pappa, skreyttar með lituðum blómapappír, mikið vandaverk. Allt þetta var með pappahöldum. Og ekki skemmdi að mamma var snillingur við að búa til blóm í öllum mögulegum litum úr blómapappír. Mjúkur vír var í þessum blómum svo hægt var að stinga þeim víða eða festa á veggi. Og svo komu jólin.Kveikt var á stóra lampanum sem hékk í lofti stofunnar og gaf góða birtu. Borðið var fært frá glugganum að hjónarúminu svo fleiri gætu setið við það. Logaði þar á tveim kertum stórum og þar var líka ný húslestrarbók í svörtu bandi, gyllt á kjöl, sem pabbi var nýbúinn að kaupa og þótti góð. Jólatréð fína stóð á kommóðunni og var komið í sitt skraut. Bjössi hafði keypt klemmur sem auðvelt var að festa á greinar þess og á hverri klemmu var blikkdós fyrir lítið kerti. Á greinunum var búið að koma fyrir körfum, kramarhúsum og hjartapokum. Eitthvað gott var í hverju íláti og hafði hvert sitt númer. Sömu númer voru svo á lausum miðum og áttum við að draga um þessi fallegu ílát. Nú voru líka komnar fallegar, alla vega litar skrautkúlur á greinar trésins og auk þess falleg stjarna upp úr toppinum. Góðgætið og skrautið var framlag nafna og hugmynd. Þetta var algengt meðal Íslendinga í Winnipeg.Mikið fannst mér þetta forvitnilegt og freistandi Við þessu mátti ekki róta fyrr en búið væri að lesa lesturinn og borða jólamatinn.Pabbi og mamma sátu á rúminu með Bjarna en við „piltarnir“, nafni og ég sátum á járnrúminu en Siggi og Bjössi hjá kommóðunni með jólatrénu. Pabbi las lesturinn og við sungum öll jólasálmana. Nafni* átti afskaplega fallega sálmabók í skinnbandi, logagyllta framan á blöðum svo að þegar hún var lokuð virtist þetta úr skíra gulli. Spjöldin voru þannig að þau beygðust yfir spássíuna og lokuðu yfir gyllinguna. Eftir að við höfðum sungið lásum við öll Faðir vor og lutum höfði, síðan las pabbi blessunarorð og eins og vant var fallega með sínum skýra framburði og sagði síðan: „Guð gefi ykkur góðar stundir.“Þegar lestrinum var lokið fóru mamma og nafni að bera fram rjúkandi hangikjöt og laufabrauð með kartöflumús, pottbrauð og smjör. Við vorum öll svöng eftir amstur dagsins og neyttum því matarins af góðri lyst. Á eftir var svo jólagrautur með rúsínum og saft út á. Þetta var sannkallaður jólamatur sem við nutum með mikilli gleði. Ég var þó með hugann mikið bundinn við jólatréð. Þar beið mikið ævintýri.Þegar búið var að borða afhenti mamma okkur strákunum sinn diskinn hvorum með hangikjötsbita og þremur laufakökum. Þetta var aukabiti sem við áttum að hafa til að narta í dagana milli jóla og nýárs og átti að endast alla dagana. Þetta var vel þegið og gaman að hafa svona góðgæti til eigin afnota. Við geymdum þetta í okkar eigin hirslum, púlti eða kofforti.Svo kom að því að jólatréð var sett á borðið og kveikt á öllum kertunum. Þvílík dýrð! Ljósin spegluðust í kúlunum og stjörnunni á toppnum. Sannkölluð jóladýrð! Númeramiðum var dreift á hvolfi undir trénu og pabbi stakk upp á að við skyldum syngja aftur Heims um ból til að fagna þessari dýrð. Allir voru innilega glaðir, þetta var allt svo nýtt og fallegt.Tveir miðar voru á mann og spennandi var að draga fallegustu körfuna, hjartað eða kramarhúsið. Ég fékk mjög fallega körfu og skrautlegt hjarta og margar bolsíur og súkkulaðibita og gráfíkjur. Þvílík gleði! Ég safnaði öllu góðgætinu í lítinn poka og ætlaði að geyma lengi, nema eina bolsíu sem ég renndi upp í mig. Þvílíkt bragð! Auk þessa fengu allri jólagjafir. Við strákarnir fengum frá mömmu og pabba einhverja flík, skyrtu, sokka eða vettlinga. Ég fékk fína skó úr svörtu skinni með hvítum bryddingum og íleppa með rósaprjóni og var ekki lengi að draga þá á fæturna. Ég fékk líka fallegan pakka með tuttugu litlum kertum, alla vega litum, og tuttugu eldspýtur í stokk. Þetta var enn til að auka á jólagleðina. Nafni gaf öllum eitthvað. Ég fékk forláta vasahníf með hvítu, glansandi skafti. Pabba gaf hann vindlakassa og mömmu voða fínt svuntuefni. Ég man ekki hvað hann gaf hinum strákunum. Þetta voru eftirminnileg jól, hátíðleg og gleðirík. Þegar leið á kvöldið var drukkið kaffi og súkkulaði með fína brauðinu hennar mömmu. Það var ekkert smáræði sem við strákarnir létum í okkur. Sérstaklega fundust mér góðar gyðingakökurnar og hálfmánarnir. Pabbi kveikti í vindli og nafni kom með fínar sígarettur í bláum pakka með korkenda og kveikti sér í. Hann kveikti sér stundum í sígarettu en var annars ekki óhófsmaður í því frekar en öðru. Mér fannst til um hve hann var fínn og flott, í bláum buxum, hvítri skyrtu með silkibindi og prjón í bindinu með gullfugli á enda, settan smágimsteinum, á svörtum blankskóm, hnepptum með mörgum hnöppum. Á jóladag var farið til messu. Snjór var dálítill og við mamma vorum í snjósokkum. Nafni var í fínu skónum og gammasíum og skóhlífum. Þeir feðgar voru bara í sínum venjulegu skóm. Við fórum öll inn í baðstofu til Fríðu og Bjössa, þar var svo gott að þrífa af sér snjó og laga sig til í kompu sem var framan við baðstofuna og eldhúsið. Þar var trégólf og bálkar til að sitja á og var mikið notað af kirkjufólki sem kom lengra að í messu, t.d. frá Svínárnesi, Steindyrum og Grímsnesi. Fólk vílaði ekki fyrir sér vegalengdir, ríðandi á sumrum eða á skíðum á vetrum eða lausgangandi ef svo bar undir. Á þriðja í jólum var tréð tekið niður og geymt vel fram á gamlárskvöld, þá átti að kveikja á því aftur. Dagarnir liðu fljótt, allir voru glaðir og ánægðir. Bjart var í húsinu þótt dimmt væri úti, jafnvel stórhríð. Stórfenglegt var að eiga sjálfur heilan pakka af kertum og eldspýtur til að kveikja á. Ég var að vísu áminntur um að fara varlega með eldinn svo ég kveikti ekki í bænum. Þetta mundi ég vel, vissi að hér hafði tvisvar brunnið bær og það var alltaf í huga mínum þegar ég kveikti á kerti.Ég var oft að narta í jólamatinn. Vasahnífurinn kom í góðar þarfir við að skera sneið af kjötbitanum og smám saman minnkaði á diskinum.Svo rann upp gamlársdagur. Þá urðu aftur jól. Nokkuð á annan hátt en allt hátíðlegt. Jólamatur var aftur á borðum en nú voru engar gjafir en jólatréð stóð aftur á borðinu og skartaði skrauti og ljósum. Pabbi las lestur, aðrir sálmar sungnir en að lokum Heims um ból eins og á jólakvöldi. Og nú fengu strákarnir tvær laufabrauðskökur sem áttu að endast fram á þrettánda. Ég taldi kertin mín, átti eftir tíu en fáar eldpýtur. Mamma laumaði í stokkinn minn nokkrum til viðbótar. Pabbi kveikti í vindli og mér fannst góð lyktin af reyknum. Hún minnti mig á lyktina á Svalbarðseyri hjá Jakobi Björnssyni.Þegar nálgaðist miðnætti fóru þeir Bjössi og Siggi niður í kirkju til að hringja klukkunum. Það var siður þá að fólkið safnaðist saman í kirkjunni og syngi áramótasálma. Þeir sem kunnu hringdu klukkunum og ungir lærðu listina. Mig langaði mikið til að fara með en var talinn of ungur til þess.Mamma, pabbi og nafni spiluðu gosa þar til strákarnir komu heim um miðnættið. Þá drukku allir kaffi og súkkulaði með fína brauðinu. Allir kysstust og buðu gleðilegt nýár og þökkuðu fyrir liðna árið.Árið 1916 var liðið, árið 1917 runnið upp.
*Nafni var Ingólfur Guðmundsson prentari, móðurbróðir IB, sem hafði búið lengi í Winnipeg en var kominn heim.
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30