Aðventudagur í Gamla bænum Laufási er orðinn fastur liður í jólaundirbúningi margra Eyfirðinga og gesta þeirra en hann verður haldinn sunnudaginn 2. desember kl 13:30-16. Þá gefst gestum tækifæri til að fylgjast með undirbúningi jólanna eins og hann var í gamla sveitasamfélaginu.  Undirbúningur jólanna hefst með jólastund fyrir alla fjölskylduna í Laufáskirkju kl 13:30 í umsjón sr. Bolla Péturs Bollasonar. Barnakórar syngja jólalög undir stjórn Sigríðar Huldu Arnardóttur og Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur. Eva Margrét og Þóra Björk leika ljúfa tóna á harmonikku og fiðlu. Gamli bærinn Laufás iðar af lífi þennan dag. Það logar kátt á hlóðum og kraumar vel í feitinni á meðan laufabrauðið er skorið og steikt. Stórir og smáir keppast við að vinna sína vinnu, tólgarkerti verða steypt og börn á öllum aldri geta gert jólaskraut eins og tíðkaðist áður fyrr og gripið verður í spil. Ilmur af nýreyktu hangikjöti læðist um híbýlin, jólasaga verður sögð í baðstofunni og kvæðasöngur með jólalegum blæ mun óma um alla sveit. Þetta mun án efa vekja athygli jólasveinanna sem eru á leið til byggða. Þeir munu leika við hvern sinn fingur gestum og gangandi til skemmtunar.

Í Kaffi Laufási geta gestir keypt sér veitingar um leið og þeir njóta þess að hlusta á jólalög í flutningi Evu Margrétar og Þóru Bjarkar.

Það eru Þjóðháttafélagið Handraðinn, Kvæðamannafélagið Gefjun og velunnarar Laufáss sem gera það mögulegt að hægt er að upplifa jólaundirbúning gamla sveitasamfélagsins á þennan hátt.

Aðgangseyrir kr. 800 fyrir fullorðna. Börn 15 ára yngri fá frítt inn

KEA-kortið veitir 50% afslátt!