Jólastemning mun ríkja sunnudaginn 5. desember kl 13:30 -16.00 í Gamla bænum Laufási. Þá verður hægt að fylgjast með undirbúningi jólanna eins og hann var í gamla sveitasamfélaginu. Jólastund verður í Laufáskirkju kl 13:30 þar sem yngri barnakór Akureyrarkirkju kemur í heimsókn og syngur jólalög. Í Gamla bænum verður laufabrauðs-, kerta- og jólaskrautsgerð auk þess sem hægt verður að æfa sig í púkki.Jólalegur kvæðasöngur Gefjunnar ómar um alla sveit. Í Gamla prestshúsinu verður handverk úr héraði til sölu ásamt ilmandi smákökum, kakói og kaffi undir jólalegum harmonikkuleik Evu Margrétar Árnadóttur. .

Það er Handraðinn, vinafélag Gamla bæjarins,  ásamt fjölda annarra velunnara sem gerir það mögulegt að hægt er að upplifa jólaundirbúning gamla sveitasamfélagsins á þennan hátt.

 

Aðgangseyrir er kr. 600- fyrir fullorðna og frítt er fyrir börn yngri en 16 ára.