Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, afhenti Guðrúnu Kristinsdóttur safnstjóra á Minjasafninu á Akureyri fyrsta margmiðlunardisk um sögu KEA, sem nú er aðgengilegur öllum gestum MInjasafnsins. Það var við hæfi að Minjasafnið tæki við fyrsta eintakinu þar sem forsvarsmenn KEA áttu á sínum tíma frumkvæði að stofnun safnsins.

 

Þannig hefur KEA, allt frá árinu 1949, stuðlað að varðveislu sögunnar hér á svæðinu en hin síðari ár hefur Iðnaðarsafnið einnig notið mikils stuðnings KEA enda eru þar fjölmargir munir sem tengjast sögu félagsins. 

Fyrirtækið Gagarín í Reykjavík hefur unnið margmiðlunardiskinn, en þar er blandað saman myndvinnslu og textagerð með nýjustu tækni.  Óskar Þór Halldórsson vann handritið, en myndefni kemur frá fjölmörgum aðilum m.a. frá Minjasafninu, Ljósmyndasafni Reykjavíkur og fjölmörgum einkaaðilum.

Í kjölfar breytinga á starfsemi KEA upp úr aldamótunum 2000 var Starfsmannafélagi KEA (SKE) slitið árið 2003 og jafnframt undirritaður þríhliða samningur milli Kaldbaks, SKE og KEA um að peningagjöf  SKE skyldi varið til þess að minnast starfa starfsmanna KEA og SKE. Þessari peningagjöf hefur verið varið til þess að kosta gerð þessa margmiðlunardisks, sem ber einfaldlega nafnið “KEA 1886-2006 – saga KEA í máli og myndum”.

Eitt eintak af margmiðlunardiskinum fer inn á öll heimili félagsmanna KEA, en félagsmenn geta pantað fleiri eintök af diskinum í gegnum heimasíðu félagsins eða með því að hringja á skrifstofu þess.