Þjóðminjavörður afhendir Elínu Margréti  fyrsta eintakið
Þjóðminjavörður afhendir Elínu Margréti fyrsta eintakið
Þann 29. ágúst, á 145 ára afmælisdegi Akureyrarbæjar, opnaði sr. Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup sýninguna Kirkjur Íslands, í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju.  Sama dag komu út níunda og tíunda bindi samnefndrar ritraðar, sem gefin er út af Þjóðminjasafni Íslands, Húsafriðunarnefnd ríkisins, Fornleifavernd ríkisins, og Biskupsstofu. Tvö nýjustu bindin fjalla um friðaðar kirkjur í Eyjafjarðarprófastsdæmi. Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafnið í Hvoli á Dalvík tóku þátt í útgáfu þeirra með því að leggja til greinaskrif og gamlar ljósmyndir af kirkjustöðunum.

Í Eyjafjarðarprófastsdæmi eru átján friðaðar kirkjur. Þær eru flestar friðaðar vegna aldurs, því samkvæmt þjóðminjalögum eru kirkjur byggðar fyrir 1918 sjálfkrafa friðaðar.

Hægt er að friðlýsa yngri kirkjur ef sérstök ástæða er til.

Elst kirkna í Eyjafirði er Bakkakirkja byggð árið 1842. Hana byggði Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni, nafnkunnur kirkjusmiður og höfðingi á sinni tíð. Yngst hinna friðlýstu kirkna er Akureyrarkirkja, vígð árið 1940, teiknuð af Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins. Akureyrarkirkja er friðuð að ytra útliti vegna byggingarlistalegra gæða.

Í bókunum Kirkjur Íslands er rakin saga kirkjustaðanna og byggingarsaga þeirra kirkna sem nú standa. Þá er fjallað um kirkjugripi og minningarmörk í kirkjugörðum. Áhersla er lögð á gamla gripi. Mikill menningararfur er fólginn í kirkjum Eyjafjarðar. Bækurnar eru ríkulega myndskreyttar og ætlaðar öllum áhugasömum.

Sýningin í Safnaðaheimili Akureyrarkirkju er í samvinnu Eyjafjarðarprófastsdæmis og útgefenda Kirkna Íslands. Hún fjallar um kirkjur í vestanverðu Hólastifti, þ.e. á Ströndum, í Húnaprófastsdæmi, Skagafirði og Eyjafirði. Sýningin stendur út september, og er opin virka daga fyrir hádegi. Ef óskað er eftir leiðsögn fyrir hópa má hafa samband við sr. Guðmund Guðmundsson héraðsprest í síma 897 3302, og Guðrúnu M. Kristinsdóttur safnstjóra í síma 462 4162.