Í tilefni af útkomu binda 9 og 10 í ritröðinni Kirkjur Íslands verður opnuð sýning miðvikudaginn 29. ágúst kl. 20.00 í safnaðarheimili Akureyrarkirkju um friðaðar kirkjur, gripi og minningarmörk í Eyjafirði, Skagafirði, Húnaþingi og á Ströndum. Þorsteinn Gunnarsson. Arkitekt, greinir frá Kirkjum Íslands og bindum 9 og 10 sem fjalla um Eyjafjarðarprófastsdæmi, en  Sr. Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup opnar sýninguna.Sýningin stendur til 29. september.

Í gegnum tíðna hafa kirkjur verið uppspretta andlegrar umhyggju þjóðarinnar en fæstir gera sér grein fyrir hve ríkulegan menningararfur er að finna í kirkjulistagripum og kirkjubyggingunum sjálfum.  Í tilefni af þúsund ára afmælis kristnitöku á Íslandi var stofnað til útgáfu ritraðarinnar Kirkjur Íslands. Útgáfan er samstarfsverkefni Húsafriðunarnefndar, Þjóðminjasafns Íslands, Biskupsstofu og Hins íslenska bókmenntafélags.

  

Ritröðin Kirkjur Íslands er grundvallarrit um friðaðar kirkjur á Íslandi þar sem horft er á kirkjurnar frá sjónarhóli byggingarlistar, stílfræði og þjóðminjavörslu. Í máli og myndum er fjallað um kirkjurnar sjálfar ásamt kirkjugripum og minningarmörkum. Í heild sinni er verkinu ætlað að verða yfirgripsmikið fræðslu- og kynningarrit, sem höfðar til almennings og hvílir á traustum rannsóknum, er ýmist hafa verið gerðar á vegum eða fyrir atbeina samstarfsaðila. Þá er og til þess ætlast að verkið standist fræðilegar kröfur um nákvæmni og vinnubrögð og nýtist á þann hátt fræðimönnum.

 

Í ritinu er um að tefla tvö meginumfjöllunarefni, annars vegar hið varðveitta mannvirki, byggingarlist þess og sögu, og hins vegar kirkjugripi og minningarmörk, list þeirra og sögu. Um þetta tvennt er fjallað á ítarlegan hátt en öðru efni, sem ekki telst til kjarna umræðunnar en varpar samt á hana ljósi, gerð lauslegar skil. Fjallað er um þær kirkjur einar sem friðaðar eru samkvæmt þjóðminjalögum ásamt kirkjugripum þeirra og minningarmörkum. Kirkjur, sem reistar eru eftir 1918 og ekki eru friðaðar, eru utan við efni ritsins. Ekki hefur þótt ástæða til að ráðast í tímafrekar frumrannsóknir á sögu kirkjustaða af þessu tilefni. Af þeim sökum er hvorki fjallað um horfnar kirkjur né kirkjumuni, nema þar sem annað hvort liggja fyrir eldri rannsóknir eða efnið kallar á rannsóknir sem ytri rammi verksins, efni og ástæður, leyfa. Ritið er prýtt fjölda ljósmynda, bæði gamalla og nýrra, og teikningum af öllum þeim kirkjum sem um er fjallað.