Í ár eru liðin 94 ár frá því konur öðluðust kosningarétt og kjörgengi á við karla. Í tilefni dagsins verður boðið upp á Kvennasögugöngu um innbæinn á Akureyri. Gengið verður frá Samkomuhúsinu kl.16.15 og mun Elín Antonsdóttir leiða gönguna. Staldrað verður við heimili Vilhelmínu Lever, Ragnheiðar O. Björnsson, Önnu Þorbjargar, Elísabetar Geirmundsdóttur og fleiri kvenna í innbænum. Gangan endar í Minjasafnsgarðinum þar sem boðið verður uppá kaffi. Gangan er samstarfsverkefni Minjasafnsins á Akureyri, Jafnréttisstofu og Zontaklúbbsins á Akureyri.
Kristín Sigfúsdóttir, bæjarfulltrúi, ávarpar göngugesti við Samkomuhúsið en síðan verður haldið af stað sem leið liggur inn innbæinn.
Auk þess að vera góð útivera þá hefur gangan það að markmiði að glæða húsin í innbænum lífi og vonandi munu göngugestir upplifa nýja og áhugaverða tengingu við húsin.
Kvennasögugangan er nú gengin í annað sinn á Akureyri en í fyrra voru þátttakendur um 150.
Gangan myndaði nýja tengingu við innbæinn og varpaði ljósi á líf kvenna sem höfðu margar hverjar mikil áhrif á líf bæjarbúa á sínum tíma.
Að göngu lokinni verður boðið upp á kaffi í Minjasafnsgarðinum og Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu flytur ávarp í tilefni dagsins.