Í tilefni kvenréttindadagsins miðvikudaginn  19. júní kl 16:30  verður kvennasöguganga um Oddeyrina í fyrsta sinn. Saga kvenna á eyrinni er mörgum hulin og því gefst hér kjörið tækifæri til að fá innsýn í líf og störf þeirra en konur á eyrinni sáu t.d. um ýmiskonar rekstur um aldarmótin 1900 og fram á miðja 20. öld. Örn Ingi Gíslason mun leiða gönguna og varpa ljósi á líf kvenna og ýmsar uppákomur, hefðir og venjur sem ríktu á eyrinni. Í ár eru 150 ár frá því að Vilhelmína Lever greiddi atkvæði í fyrstu bæjarstjórnarkosningunum á Akureyri árið 1863, en konur öðluðust ekki kosningarétt til sveitarstjórna fyrr en 20 árum síðar. Vilhelmína bjó á nokkrum stöðum á Akureyri m.a. á eyrinni en hún var mikil framkvæmdakona rak t.d. vertshús og var brautryðjandi í tómstundamálum bæjarbúa þegar hún setti upp “strýtuflöt” við veitingahúsið sitt í fjörunni. Saga Jónsdóttir leikkona mun segja okkur frá Vilhelmínu í tilefni af kosningaafmæli hennar. Kvennasögugangan hefst við Ráðhústorg kl. 16:30 og lýkur við Gamla Lund. Ekkert þátttökugjald er í gönguna. Gangan er samstarfsverkefni Jafnréttisstofu, Héraðsskjalasafnsins á Akureyri, Minjasafnsins á Akureyri, Zontakvenna og Akureyrarbæjar.