Skerandi óp, dularfullur andardráttur, drungaleg tónlist, draugasögur og verur af öðrum heimi er meðal annars það sem gestir og gangandi munu heyra og sjá í Innbænum, elsta hluta Akureyrar, næstkomandi föstudagskvöld 27. ágúst kl 22:30-23:59. Þetta kyngimagnaða kvöld hefst á Minjasafninu sjálfu þar sem draugalegt verður um að litast frá kl 22:00 – 23:59. Gestir safnsins munu virða fyrir sér sýningar þess með öðrum hætti en áður og dulúð og draugalegheit munu ráða ríkjum.  Draugasögur, flestar sannar, verða sagðar í Minjasafnsgarðinum, við Friðbjarnarhús, Gamla spítalann og Laxdalshús. Í myrkrinu sem umlykur Innbæinn þetta kvöld verður erfitt að gera greinamun á verum þessa heims og annars.  Annarlegar verur munu lifna við innan um safngripi og kannski verða öll skúmaskot safnsins stútfull af kyngimögnuðum krafti – hver veit!   Draugaslóðin er að þessu sinni mönnuð af starfsmönnum safnins, sjálfboðaliðum úr Leikfélagi Hörgdæla,  og öðrum áhugasömum velunnurum Minjasafnins á Akureyri. Enginn aðgangseyrir er að safninu föstudag og laugardag sem að venju er opið frá kl 10-17. Á þeim tíma er ekkert að óttast. Vert er að benda á að þetta kyngimagnaða kvöld í Innbænum, eins og hann leggur sig, getur skotið skelk í bringu ungra barna og viðkvæmra sála.