Sýning á leikföngum Guðbjargar Ringsted verður opnuð í Friðbjarnarhúsi á íslenska safnadaginn, sunnudaginn 11. júlí, kl 14. Leikföngin eru frá síðustu öld og því enginn vafi á því að mömmur, pabbar, afar, ömmur, frænkur og frændur geta séð ýmislegt sem þau kannast við frá því þau voru börn og geta rifjað upp góðar æskuminningar með börnum sínum, systkinum, foreldrum, frænkum og frændum. Það eru allir hjartanlega velkomnir á opnunina. Opið er í Friðbjarnarhúsi daglega kl 10-17 frá 12. júlí - 15. september Guðbjörg byrjaði að safna leikföngum sér til ánægju þegar hún var tvítug að aldri. Hún hefur lengi átt sér þann draum að úr verði leikfangasafn. Síðastliðin 18 ár hefur hún safnað leikföngum með það að markmiði en hún sér einnig fyrir sér að í framtíðinni gætu leikföng hennar verið hluti af heild sem sem saman myndi skapa langþráð barnamenningarhús hér á Akureyri. Gamlar brúður hafa lengi verið í uppáhaldi hjá Guðbjörgu þær spila því stórt hlutverk í sýningunni auk bíla og annarra gersema úr gullakistu hennar. Segja má að með sýningunni sem sett er upp í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri og Akureyrarstofu sé því hluti draums hennar að verða að veruleika. Friðbjarnarhús stendur í elsta hluta Akureyrarbæjar og hefur nú á ný fengið hlutverk sem glæðir það lífi. Góðtemplarareglan hefur á síðustu árum unnið ötullega að því að gera húsið upp og afraksturinn er vel heppnað hús sem myndar skemmtilega umgjörð um sýninguna. Á efri hæð hússins má sjá sjá fundarsal reglunnar. Akureyrarbær fékk húsið nýlega að gjöf frá Góðtemplarareglunni og er það í umsjón Akureyrarstofu.