Á Minjasafninu stendur yfir sýningin "Ljósmyndari Mývetninga – mannlífsljósmyndir Bárðar Sigurðssonar frá upphafi 20. aldar". Á sýningunni má sjá fjölda ljósmynda Bárðar, en þær gefa skemmtilega innsýn í líf Mývetninga við upphaf 20. aldar. Sýningin er samstarfsverkefni Þjóðminjasafns Íslands, Menningarmiðstöðvar Þingeyinga og Minjasafnsins á Akureyri.Sýningin stendur til 10. mars. Hún er opin fimmtudaga til sunnudaga frá kl. 14-16. Aðgangur ókeypis. Ljósmyndir Bárðar Sigurðssonar veita einstæða sýn inn í íslenskt bændasamfélag og þjóðmenningu við upphaf nýliðinnar aldar. Nokkrir þættir stuðla að því að skapa Bárði sérstöðu meðal íslenskra ljósmyndara. Starfstími hans er tiltölulega stuttur eða um 15 ár og því bera myndirnar sterkan svip eins tímabils. Hann myndar fyrst og fremst í Þingeyjarsýslum á sínum heimaslóðum; fólk sem hann þekkir og umhverfi sem hann lifði og hrærðist í. Enginn ljósmyndari kemst jafn nálægt kjarna íslenskrar sveitamenningar og Bárður. Hann verður fyrstur til að opna okkur sýn inn í baðstofur á mörgum bæjum. Bárðar var einn af afkastamestu ljósmyndurum sem tóku stereóskópljósmyndir hér á landi á blómatíma þeirra á fyrsta áratug 20. aldar. Bárður tók og seldi slíkar myndir um allt land. Steríóskóptækni var þróuð skömmu eftir að ljósmyndin var fundin upp um miðja 19. öld. Myndatakan byggði á því að teknar voru tvær myndir samtímis á glerplötur með myndavél sem á voru tvær linsur með ákveðnu millibili til að ýkja þrívíddina. Myndirnar voru síðan settar hlið við hlið á sérstök pappaspjöld svo hægt væri að skoða þær í sérstökum kíkjum. Á sýningunni verður hægt að skoða slíkar myndir. Bárður Sigurðsson fæddist árið 1872 að Kálfborgará í Bárðardal. Smíðar urðu snemma eitt af hans meginstörfum og hann réði sig oftast í vinnumennsku að hluta til að geta sinnt smíðum samhliða. Hann fór á milli bæja til að sinna þeim verkum eða smíðaði heima. Ljósmyndun varð hans þriðja starf árið 1906 þegar hann hafði fengið grunnleiðsögn hjá ljósmyndara í Reykjavík. Fyrstu árin eftir að hann hóf ljósmyndun voru hans blómatími í því starfi, þó að hann tæki myndir fram yfir 1920. Fertugur að aldri byggði Bárður nýbýlið Höfða í Mývatnssveit og árið 1916 kvæntist hann Sigurbjörgu Sigfúsdóttur. Þau eignuðust átta börn á 16 árum. Bárður seldi Höfða 1930 og fluttist í Glerárþorp við Akureyri og vann þar við Krossanesverksmiðjuna og smíðar. Árið 1933 fékk Bárður heilablóðfall og var eftir það óvinnufær. Fjölskyldan tvístraðist í framhaldinu, þrjú barnanna voru áfram með móður sinni á Akureyri, fimm fóru á bæi í Mývatnssveit, en Bárður var fluttur heim á sveit sína og var rúmliggjandi á ýmsum bæjum í Mývatnssveit. Hann lést á Akureyri 21. febrúar 1937.
Eftir fráfall Bárðar árið 1937 seldi Sigurbjörg Sigfúsdóttir ekkja hans Eðvarði Sigurgeirssyni ljósmyndara á Akureyri plötusafn hans, sem varðveitti það mjög vel í upprunalegum umbúðum Bárðar í húsi sínu, Möðruvallastræti 4 á Akureyri. Eftir fráfall Eðvarðs og Mörtu Jónsdóttur konu hans, komu börn þeirra Egill Eðvarðsson og Elsa Friðrika Eðvarðsdóttir safni Bárðar til varðveislu á Minjasafnið á Akureyri. Safnið samanstendur af um 850 glerplötum sem eru bæði mannamyndir og útimyndir af ýmsum toga. Ljóst er að þetta er ekki allt glerplötusafn Bárðar því fleiri myndir eru til eftir hann, sem ekki eru í þessu plötusafni.
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30