Það er ekki ofsögum sagt að ósk Minjasafnsins um aðstoð frá almenningi til að bera kennsl á áningarstaði og þeirra sem þar áðu hafi verið tekið eindæma vel. Hátt í 200 gestir, bæjarbúar og áhugasamir ferðalangar á leið um vetrarríkið Akureyri,  hafa lagt hönd á plóginn og komin eru nöfn á mjög margar myndir. En betur má ef duga skal því enn vantar þó nokkuð mörg nöfn á ferðalanga á hópmyndum, þó vissulega sé búið að bera kennsl á nokkra þeirra. Starfsfólk Minjasafnsins hvetur því áhugasama til að gera sér ferð á safnið og vita hvort þeir geti komið með nýjar upplýsingar um myndirnar. Sýningin er opin um helgar til og með 15. mars frá 14-16. Allir eru velkomnir – enginn aðgangseyrir er að safninu þennan tíma.   Sýningin samanstendur af 80 óþekktum myndum úr safni Minjasafnsins. Á henni má meðal annars sjá nokkrar litmyndir sem talið er að séu meðal þeirra elstu á landinu. Hluti myndanna á sýningunni eru úr eigu Ferðafélags Akureyrar, en félagið varðveitti þær á glerplötum. Það gerði þeim kleift að varpa þeim uppá á vegg fyrir almenning.  Óþekktar myndir úr safni Bárðar Sigurðssonar, úr Mývatnssveit, og Ara Leós Björnssonar, ljósmyndara á Akureyri, má einnig sjá á sýningunni. Þeir ferðuðust víða um landið og tóku myndir.