Hátt á annað  þúsund manns, þessa heims, gengu að þessu sinni um Innbæ Akureyrar í Draugagöngu Minjasafnins og Leikfélags Akureyrar eftir setningu Akureyrarvöku síðasta föstudagskvöld. Veðrið lék við göngufólk en samt sem áður risu hár þess trekk í trekk vegna óhugnanlegra ópa, gangandi og ríðandi drauga og annars óhugnaðs en menn, konur og börn höfðu gaman af. Göngunni lauk í Samkomuhúsinu þar sem draugaleg stemmning sveif yfir vötnum þar sem fjöldi manns hlýddi á draugasögur.  Minjasafnið mun á næsta ári breyta göngunni og biður áhugasama að fylgjast með. Spurningin er hvort það verður hægt að heilsa uppá voflegar verur og þjóðþekkta brottgengna Akureyringa í Innbænum að ári?