Glöggir bæjarbúar og ferðalangar í miðbæ Akureyrar urðu þess varir að gul fótspor birtust hér og þar í blíðviðrinu í dag á gangstéttum bæjarins. Fótspor þessi eiga að vísa áhugasömu fólki leiðina inn í Innbæ, elsta hluta Akureyrar, þar sem Minjasafnið á Akureyri er staðsett. Þetta er tilraunaverkefni sem Minjasafnið stendur fyrir með góðfúslegu leyfi Akureyrarbæjar. Vonir standa til þess að fótspor barnabókarithöfundarins Nonna ,mætra kvenna og karla bætist í hópinn næsta sumar ef ekki fyrr til að vísa leiðina frá vegvísinum úr miðbænum inní söfn bæjarins. Forvitnir ferðalangar munu vonandi með þessu móti verða enn meira varir við þá ríku safnaflóru sem er að finna ekki eingöngu í Innbænum heldur um allan bæ.