Fimmtudaginn 14. apríl kl. 17:00 verður farandsýningin Ekki snerta jörðina! Leikir 10 ára barna opnuð í Þjóðminjasafni Íslands. Sýningin er afrasktur rannsóknarverkefnis átta íslenskra safna, en starfsmenn þeirra rannsökuðu leiki 10 ára barna víða um land veturinn 2009-2010. Í lok júlí verður sýningin tekin niður og send í hringferð um landið og verður hún sett upp ýmist í söfnum eða skólum. Sýningin verður sett upp hér á safninu vorið 2012. Samhliða sýningunni verður opnuð heimasíða, þar sem hægt verður að fræðast um verkefnið og fylgjast með ferðum sýningarinnar: www.thjodminjasafn.is/ekki-snerta-jordina
Hvernig leika börn sér í dag? Þessi spurning var hvatinn að rannsókninni á leikjum 10 ára barna árið 2009. Söfnin sem stóðu að rannsókninni voru Minjasafnið á Akureyri, Árbæjarsafn, Byggðasafn Árnesinga á Eyrarbakka, Byggðasafn Reykjanesbæjar, Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum, Nesstofusafn, Þjóðfræðistofa á Hólmavík og Þjóðminjasafn Íslands.
Starfsmenn safnanna heimsóttu skóla og tóku viðtöl við nemendur í 5. bekk um leiki og leikföng. Sum barnanna héldu dagbók um leiki sína í eina viku og afhentu söfnunum til varðveislu. Einnig voru teknar ljósmyndir og stutt myndskeið af börnum í ýmsum leikjum. Sýningin á að gefa innsýn í leikjaheim 10 ára barna í dag og hvetja til áframhaldandi rannsókna á þessu skemmtilega efni.