NORÐURLJÓS - næturbirta norðursins
Minjasafnið á Akureyri opnar laugardaginn 1. júní kl. 15 sýninguna NORÐURLJÓS – næturbirta norðursins. Hvað eru norðurljós? Er hægt að fanga þau á mynd? Hvað uppgötvuðu dönsku vísindamennirnir á Akureyri árin 1899-1900? Svör við þessum spurningum og annan forvitnilegan fróðleik um norðurljós má sjá á sýningunni sem samanstendur af ljósmyndum frá 2013 og málverkum frá 1899.
Helgi Jóhannsson, konsúll Danmerkur, opnar sýninguna með stuttu ávarpi, en Helgi mun afhenda Minjasafninu á Akureyri gjöf frá Dönsku veðurfræðistofnuninni.
Léttar veitingar eru í boði Icelandair Hotel Akureyri.
Sýningin er unnin í samstarfi við DMI dönsku veðurstofuna og Peter Stauning sem gaf út bók um leiðangurinn árið 2011.
Málverkin eru eftir danska málarann Harald Moltke. Hann var í hópi vísindamanna frá dönsku veðurstofunni sem kom gagngert til Akureyrar 1899 til að rannsaka norðurljósin.
Norðurljósaleiðangur vísindamanna dönsku Veðurfræðistofunnar 1899-1900 til Akureyrar hefur legið í gleymskunnar dá áratugum saman. Fæstir hafa heyrt minnst á danska norðurljósaleiðangurinn, rannsóknarhúsin Auroru, sem reist var á höfðanum sem nú er Kirkjugarður Akureyrar, eða „Höllina“ sem byggð var á Súlutindi í 4000 feta hæð. Einn af veigameiri þáttum leiðangursins var í höndum danska málarans Harald Viggo Moltke. Hlutverk hans var að fanga töfra norðurljósanna með pensli, náttúrufyrirbrigði sem hann hafði aldrei séð og enginn hafði áður málað. Hann skissaði hreyfingar þeirra, stærð og litbrigði á nóttunni. Á morgnana sat hann á vinnustofunni í Auroru þar sem næturbirta norðursins lifnaði við á striganum. Málverk hans vöktu verðskuldaða athygli á sínum tíma og voru sýndar í Kaupmannahöfn í París aldamótaárið 1900.
Málverk Moltkes frá 1899 kallast á við magnaðar ljósmyndir Gísla Kristinssonar, áhugaljósmyndara. Þótt 114 ár skilji listamennina að eiga þeir það sameiginlegt að nálgast myndefnið af vísindalegri nákvæmni og gæða norðurljósin lífi, Moltke með með olíulitum, Gísli í gegnum linsu myndavélarinnar.
Ljósmyndirnar tók áhugaljósmyndarinn Gísli Kristinsson frá Ólafsfirði. Hann hefur náð einstökum tökum á að ljósmynda norðurljósin sem dansa um himininn í leikmynd Eyjafjarðar. Moltke var í för með vísindamönnum dönsku Veðurfræðistofnunarinnar en Gísli nýtir sér norðurljósaspár Veðurstofu Íslands til að eltast við næturbirtu norðursins.
Norðurljósavinnustofa barnanna
Á sýningunni geta börn á öllum aldri litað, skissað eða leikið með norðurljósin sér til skemmtunar. Um leið geta þau ímyndað sér hvernig það er að reyna að fanga þau að kvöldi og mála að morgni með nákvæmum hætti.
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30