Af hverju eru kortin á Akureyri? Af hverju safna þýsk hjón Íslandskortum?
Árið 2014 færðu þýsk hjón dr. Karl-Werner Schulte (1946) og dr. Gisela Schulte-Daxbök (1952-2019) Akureyrarbæ safn einstakra landakorta af Íslandi sem gerð eru af helstu kortagerðarmönnum Evrópu frá 1500-1800. Ástarsaga þeirra hjóna er samofin Íslandi og þessum fornu kortum sem fylltu veggi heimili þeirra.
Allt hófst þetta með ferðum Karl-Werner til Íslands í byrjun 7. áratugsins. Hvers vegna heimsótti hann Ísland? Jú hann var búinn með hin norrænu löndin! Karl-Werner, sem hafði ferðast um landið þvert og endilangt, smitaði Giselu af óþrjótandi áhuga á Íslandi. Þangað fóru þau í brúðkaupsferð sem endaði á Akureyri.
Íslandsáhuginn fór einnig að beinast að fágætum Íslandskortum. Reyndar fyrir tilviljun því kaupa átti eitt kort til að prýða heimilið. Synir þeirra þrír, Frank-Michael, Kai-Magnus og Sven, ólust hins vegar upp við veggi sem voru þaktir skrítnum myndum af þessu framandi landi.
Karl-Werner og Gisela ákváðu í samráði við syni sína að það færi best að safnið væri varðveitt sem heild og yrði öðrum til ánægju og gagns. Þau vildu helst af öllu að það færi til Akureyrar, sem þau höfðu tekið ástfóstri við í brúðkaupsferðinni og heimsótt reglulega. Árið 2014 samþykkti Akureyrarbær að taka við kortunum sem nú er hluti safnkosts Minjasafnins á Akureyri.
Veggir heimilisins í Jóhannesberg tæmdust, bókstaflega, og þar með héldu hjónin að söfnun Íslandskorta væri lokið. Fljótlega fóru safninu að berast tölvupóstar. „Við fundum eitt kort sem er einstakt! Búinn að vera á höttunum eftir því í 40 ár! Á ég að kaupa það? “ Stuttu síðar kom svarið í tölvupósti. „Þú fyrirgefur en ég stóðst ekki mátið.“
Ferðir fjölskyldunnar til Íslands voru fjölmargar og hér var stórum áföngum á lífsleiðinni fagnað. Tengslin við Akureyri efldust með árunum sem varð til þess að þau ákváðu að þeirra hinsti dvalarstaður ætti að vera á Akureyri, nærri kortunum sem stóðu hjarta þeirra svo nærri. Gisela Shulte-Daxbök lést árið 2019 og hvílir í Lögmannshlíðarkirkjugarði.
Önnur ástríða Schulte hjónanna eru rósir. Ein rós ber nafn Giselu, sem má m.a. finna í Lystigarðinum á Akureyri og í Minjasafnsgarðinum.
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30