Afmælisgangan fimmtudaginn 23. ágúst kl. 20er um Oddeyrina. Oddeyrin er ein sandeyranna sem Akureyri byggðist á í upphafi og fyrstu frásagnir af henni tengjast þinghaldi frá árinu 1300. Fyrstu húsin risu á Oddeyri árið 1858 og upp úr 1870 fór Gránufélagið að byggja upp hús sín þar, sem standa enn í dag. Margskonar atvinnustarfsemi hefur verið á Eyrinni, fiskvinnsla, matvælaiðnaður og þjónusta, og þar hafa komið við sögu nokkrir vel þekktir einstaklingar úr sögu Akureyrar.

Jón Ingi Cæsarsson leiðir gönguna sem byrjar við Hof að lokinni stuttri yfirferð um sögu og myndir frá gömlu Oddeyri í Hömrum í Hofi sem hefst kl. 20. Gangan tekur um klukkustund og er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Afmælisnefnd Akureyrarbæjar og Minjasafnið á Akureyri bjóða upp á göngur öll fimmtudagskvöld í sumar.