Ert þú sigldur og hefur farið víða innanlands? Ertu minnug/ur á staðhætti? Ef svo er þá óskar Minjasafnið á Akureyri eftir þinni hjálp til að koma nafni á áningarstaðina sem og andlit þeirra sem þar áðu á ljósmyndasýningunni Þekkir þú...áningarstaðinn? Þetta er ljósmyndasýning á óþekktum myndum úr safni Minjasafnsins. Sýningin opnar laugardaginn 14. febrúar kl 14 og stendur til 15.mars. Verið velkomin      Sýningin samanstendur af 80 óþekktum myndum úr safni Minjasafnsins. Á henni má meðal annars sjá nokkrar litmyndir sem talið er að séu meðal þeirra elstu á landinu. Hluti myndanna á sýningunni eru úr eigu Ferðafélags Akureyrar, en félagið varðveitti þær á glerplötum. Það gerði þeim kleift að varpa þeim uppá á vegg fyrir almenning.  Óþekktar myndir úr safni Bárðar Sigurðssonar, úr Mývatnssveit, og Ara Leós Björnssonar, ljósmyndara á Akureyri, má einnig sjá á sýningunni. Þeir ferðuðust víða um landið og tóku myndir.  Minjasafnið á Akureyri státar af safnkosti uppá 2,5 milljónir mynda. Það er því í hópi stærstu safna sinnar tegundar á landinu. Margar myndanna eru óþekktar og því hefur verið brugðið á það ráð að að setja saman sýningaröðina Þekkir þú...? Það er ekki ofsögum sagt að árangur og aðsókn að sýningum tveimur úr þessari sýningarröð hafa farið fram úr björtustu vonum starfsfólks Minjasfnins. Þess vegna er nú enn á ný brugðið á það ráð að fá aðstoð glöggra einstaklinga til að fá hjálp við að setja nafn á andlit og áningastaði óþekktra mynda á þessari þriðju sýningu sýningarraðarinnar. Sýningin er opin allar helgar kl 14-16 til 15. mars.   Allir eru velkomir – enginn aðgangseyrir