Á laugardaginn verður gengið um elsta hluta Akureyrar, Innbæinn og Fjöruna. Gengið verður frá Laxdalshúsi, Hafnarstræti 11, og tekur gangan um eina og hálfa klukkustund.  Laxdalshús er elsta hús á Akureyri, byggt 1795 og er eina húsið sem eftir stendur af gamla verslunarstaðnum niður af Lækjargilinu, öðru nafni Búðargili. Í Innbænum var þungamiðja Akureyrar allt fram um aldamótin 1900. Þar þreifst verslun og greiðasala, handiðnaður og menning sem enn má sjá merki um í mannvirkjum og húsbyggingum. Í Innbænum er timburhúsabyggð með ýmsum dæmum um mismunandi byggingarstíla. Húsin og umhverfið geymir margar sögur, sem Hörður Geirsson miðlar í sögugöngunni. Gangan er létt og hentar öllum. Lagt verður af stað kl. 14.

Húsin í Innbænum eru mörg kennd við danska kaupmenn sem versluðu þar lengi framan af og fluttu með sér erlenda menningarstrauma.  Sumir voru áhugasamir um tónlist og leiklist eins og sá ferðugi hljóðfæraleikari faktor Mohr og leikhúsáhugamaðurinn Bernhard August Steincke.  Á Akureyri voru hús kennd við Höepfner, Túliníus og Friðrik Gudmann sem gaf Akureyringum hús undir spítala.  Og ekki má gleyma þeirri mætu konu Vilhelmínu Lever, dugnaðarforki, verslunareiganda og hótelhaldara sem varð fyrst íslenskra kvenna til að taka þátt í opinberum kosningum 1863.