Ferðalag um sögu íslenskrar tónlistar í tali og tónum í viðeigandi umhverfi Minjasafnskirkjunnar við Aðalstræti 56.Flytjendur Hjörleifur Hjartarson og Íris Ólöf Sigurjónsdóttir. Staður:  Minjasafnskirkjan við Aðalstræti 56 (í Minjasafnsgarðinum sunnan við Nonnastyttuna)Stund: Kl. 20:30-21:30 Aðgangseyrir 1500 kr.

ÍSLENSKIR SÖNGVAR Í ALDANNA RÁS


Fram að 20. öld er íslensk tónlistarsaga nær einvörðungu saga söngs og sá söngur var nátengdur orðsins list sem ávallt hefur verið þungamiðja íslenskrar menningar. Öðruvísi gat tónlistin varla verið því lengst af voru nær enginn hljóðfæri til í landinu. Efniviður til að smíða hljóðfæri var enginn né heldur fjármunir til að kaupa þau. Ekki heldur sú stétt hefðarfólks sem í útlöndum hélt uppi hljómsveitum og hljóðfæraleikurum. DRÓTTKVÆÐI voru helsta ljóðlist Íslendinga á fystu öldum byggðar í landinu. Þau hafa fastan takt og hljóðfall en við vitum ekki hvernig þau fóru flutt. Eftir að sönglist fór að þróast hér meira voru sum dróttkvæði sungin. Allnokkrar heimildir eru um sönglist á Íslandi frá 13. og 14. öld. Á svipuðum tíma virðist hefjast hér trúarlegur og veraldlegur söngur. Hins vegar er mjög lítið skrifað niður af íslenskum lögum fyrr en á 18. öld og mest síðan um 1900. 

VERALDLEG ÞJÓÐLÖG OG DANSKVÆÐI EÐA VIKIVAKAR voru skemmtisöngvar, oft í tengslum við leik og dans, e.t.v. líkt því sem enn lifir í Færeyjum. Efni þessara dansa (sem oft var riddararómantík) og einnig braghættir þeirra og lög hafa upphaflega verið erlend en liðu og þróuðust í landinu og urðu þannig íslensk. Ólafur liljurós og Taflkvæði eru meðal fárra þjóðlaga þessarar tegundar sem varðveist hafa.

 TRÚARLEGUR SÖNGUR var iðkaður í kirkjum og klaustrum á miðöldum. Í nótnaskrift (af Þorláks tíðum) í handriti frá 13. öld er fyrirskrifuð tónlist í hægum og alvarlegum takti í ætt við gregorskan kirkjusöng miðalda. Lagið við Lilju eins og það var skrifað niður löngu síðar gæti hafa þróast frá þvílíkum söng. Eftir siðaskipti kom hér til annars konar kirkjusöngur, og voru það sönglög sem komu erlendis frá en lifðu síðan á vörum fólks í tímans rás og þróuðust og breyttust, þar til þau voru skrifuð niður sem íslensk þjóðlög. TVÍSÖNGUR Gregorsöngur miðalda var einradda, en meðal hinn gömlu íslnensku þjóðlaga eins og þau voru skrifuð niður birtist allrík hefð svokallaðra tvísöngslaga bæði trúarlegs og veraldlegs eðlis. Í þeim lögum fara tvær raddir saman í samstígum fimmundum (báðar karlraddir). Fylgiröddin byrjar sem lág undir fimmund en “ fer upp” á ákveðnum stað í laginu og verður há yfir fimmund.  Lögin eru yfirleitt hæg og alvarleg og fjarri allri danshefð. Þau eru í gömlum kirkjutóntegundum (oftast lýdískri). Í biskupa-sögum frá 14. öld er talað um skólapilta á Hólum sem “tvísyngja”. Líklegt er að íslenski tvísöngurinn eigi uppruna sinn í svonefndum “organum”-söng, þ.e. elstu tegund af fjölröddun í Evrópu, frá því um 1000-1200. Í þeirri einangrun og hefðafestu sem hér ríkti hefur þessi forna sönghefð þá varðveist, og hvergi nema hér. RÍMUR eru alíslensk bókmenntagrein sem hefur verið langlíf í landinu, því rímur voru samdar hér og kveðnar í 600 ár. Þær héldu tengslunum við hina bókmenntalegu gullöld okkar og stuðluðu mjög að viðhaldi  tungunnar. Ríma er frásögn, t.d. Íslendingasaga eða riddarasaga, í bundnu máli og erindin gátu skipt þúsundum. Rímur voru kveðnar. Sá kveðandi var eitthvert millistig milli tals og söngs, allt frá söngli á kannski tveimur tónum til fullgilds söngs. Góðir kvæðamenn voru alls staðar aufúsugestir og gegndu miklu hlutverki í íslensku baðstofulífi. SÖNGVAR FRÁ 19. OG 20. ÖLD
Á 19. öld var hefð íslenskra þjóðlaga nánast alveg rofin. Kirkjan hafði oft amast við bæði rímum og tvísöng, en án mikils árangurs. Hitt var afdrifaríkara að skáld og menntamenn þess tíma sem kenndur er við þjóðfrelsisbaráttu höfðu oft mestu skömm á þess háttar þjóðlegri list. Söngur var snar þáttur í hinni þjóðlegu endurreisn en ljóð þjóðskáldanna á 19. öld voru sungin við erlend lög, oftast þýsk eða dönsk. Fyrstu tónlærðu menn Íslands höfðu sama viðhorf. Á fyrstu áratugum 20. aldar kom þó fram dágóður fjöldi sönglagahöfunda. Úr verkum ljóðskáldanna gerðu þeir söngva sem í flutningi einsöngvara, kóra og í fjöldasöng hafa orðið að þjóðlögum í nýrri merkingu orðsins. Meðal þessara höfunda eru: Sigvaldi Kaldalóns, Árni Thorsteinsson, Friðrik Bjarnason, Páll Ísólfsson og Ingi T. Lárusson. Síðar, einkum á eftirstríðsárunum, hafa komið fram nýjar kynslóðir tónskálda sem semja verk fyrir hljómsveitarfluning. Nokkrir þeirra hafa einnig samið sönglög sem orðið hafa vinsæl, oft í tengslum við leikhús. Þá er það í seinni tíð aftur orðið algengara að tónskáldin leiti fanga í hinum þjóðlega arfi, ekki aðeins hvað ljóðin snertir heldur einnig hljómferð og stíleinkenni lags. Jónunn Viðar, Jón Ásgeirsson og Atli Heimir Sveinsson, Leifur Þórarinsson, Þorkell Sigurbjörnsson og Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson eru fulltrúar síðustu áratuga af klassískum skóla og Valgeir Guðjónsson, Hörður Torfason og Böðvar Guðmundsson fulltrúar úr heimi alþýðutónlistar og dægurtónlistar.