Afmælisganga tengd spítalasögu Akureyrarfimmtudaginn 26. júlí kl. 20.
Magnús Stefánsson, fyrrverandi yfirlæknir barnadeildar FSA og áhugamaður um sögu sjúkrahússins á Akureyri og Hanna Rósa Sveinsdóttir, sérfræðingur í Minjasafninu á Akureyri leiða afmælisgönguna að þessu sinni og hefst hún á bílastæðinu norðan við núverandi sjúkrahúsbyggingar FSA kl. 20. Þar verður saga FSA rakin með hliðsjón af þjónustuþróun frá 1954. Þá liggur leiðin niður Spítalaveg og upp að Sóttvörn við Tónatröð, þar sem farið verður yfir byggingasögu húsanna, Gamli (Nýi) spítali 1899, Farsóttarhús/Sóttvörn 1906, viðbygging 1920, stækkun 1939 (síðar Heilsuverndarstöð, mæðravernd, nemabústaður, Stekkur, gestaíbúðir) og gangurinn, Litli kleppur 1946. Minnst á læknana Guðmund Hannesson, Steingrím Matthíasson og Guðmund Karl Pétursson og starfsemi á þeirra tímum. Loks verður gengið að Gudmanns Minde, Gamla spítala að Aðalstræti 14. Saga hússins rakin, starfsemin fyrsta árið með Páli Magnússyni og maddömu Örum og síðar Þorgrími Johnsen.
Gangan tekur um klukkustund og er þátttkendum að kostnaðarlausu.
Afmælisnefnd Akureyrarbæjar og Minjasafnið á Akureyri bjóða upp á göngur öll fimmtudagskvöld í sumar.