Sumrinu verður fagnað á Minjasafninu á Akureyri með gleði í hjarta. Börn frá 2-102 ára geta leikið við hvern sinn fingur, blásið burtu vetrinum með sápukúlum, leikið sér í búleik við Nonnahús eða tekið þátt í margvíslegum útileikjum. Svo ekki sé minnst á lummurnar. Jú og hestana sem  gefa færi á stuttri en gefandi hestaferð.Blásarar Tónlistarskólans hefja leik kl. 14 og blása inn sumrinu  en ilmur af lummum og heitu kakói lokkar væntanlega einhverja inn til að skoða skemmtilegu nýju sýningar safnsins. Ekki snerta jörðina- leikir 10 ára barna sem er skemmtileg afþreying fyrir börn á öllum aldri og þar er skylda að leika sér! Þeir sem telja sig eldri geta líka leikið sér á ljósmyndasýningu Þorsteins Jósepssonar á myndum úr Eyjafirði. Þar er leitað eftir þekkingu gesta á myndefninu og komið þeim upplýsingum til safnsins.Þar sem Akureyrarbær á 150 ára afmæli og Minjasafnið 50 ára afmæli verður boðið upp á afmælisföndur. Sannarlega eitt og annað fyrir fjölskyldur og börn á öllum aldri að skemmta sér við.Í sumargjöf er ókeypis inn á safnið. Dagskráin hefst kl. 14 og stendur til 16.Það er starfsfólk Minjasafnsins á Akureyri og Stoðvinafélag safnsins sem standa að sumargleði á sumardaginn fyrsta.