Upplýsingar um söfnin og sumarstörf Minjasafnsins á Akureyri
Minjasafnið á Akureyri heldur utan um starfsemi eftirtalinna safna:
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjuna og Nonnahús sem staðsett eru á sömu lóð við Aðalstræti 58. Davíðshús, heimili Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi að Bjarkarstíg 6, Sigurhæðir Matthíasar Jochumssonar við Eyrarlandsveg fyrir neðan Akureyrarkirkju og Gamla bæinn Laufás ásamt Gestastofu við Grenivíkurveg í Grýtubakkahreppi.
Árlega koma yfir 20 þúsund innlendir og erlendir gestir/ferðamenn í heimsókn í söfnin og koma flestir þeirra yfir sumartímann. Starfsmenn þurfa að sýna sínar bestu hliðar við móttöku þeirra, hafa ríka þjónustulund, prúða framkomu og vera snyrtileg til fara.
Í Minjasafninu eru þrjár sýningar, „Akureyri, bærinn við pollinn“ fastasýning safnsins um sögu Akureyrar, „Land fyrir stafni“ Íslandskortasafn frá 1547 til 1800 og sumarsýningin „Ertu tilbúin frú forseti?“ Sýning á fatnaði og fylgihlutum ásamt sögulegum ferli frú Vigdísar Finnbogadóttur fyrrum forseta Íslands. Í Minjasafninu er einnig safnbúð þar sem eru til sölu ýmsir minjagripir og smávara.
Starfsmenn þurfa að setja sig inn í sýningarnar, geta sagt frá þeim og leiðbeint gestum á fleiri en einu tungumáli.
Nonnahús, Davíðshús og Sigurhæðir eiga það sameiginlegt að hafa á árum áður verið heimili skáldanna þriggja Jóns Sveinssonar, Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi og Matthíasar Jochumssonar.
Starfsmenn þurfa að kynna sér sögu skáldanna, þekkja verk þeirra, húsakynni og muni, geta sagt frá og leiðbeint gestum á fleiri en einu tungumáli. Í skáldahúsunum eru til sölu ýmsar vörur tengdar söfnunum.
Gamli bærinn Laufás í Grýtubakkahreppi er einn af fáum torfbæjum á Íslandi sem enn eru ofanjarðar og liggur mikil og löng saga á bak við hann sem starfsmenn þurfa að kunna skil á og getað miðlað til gesta/ferðamanna á fleiri en einu tungumáli. Bærinn er einn mest sótti ferðamannastaður í Eyjafirði og er oft margt um manninn, sérstkalega þegar skemmtiferðaskip koma í höfn á Akureyri. Í Gestastofunni sem staðsett er í gamla prestssetrinu við bæinn er rekin minjagripaverslun og seldar léttar veitingar, þar eru einnig snyrtingar, móttaka fyrir hópa og upplýsingaþjónusta fyrir ferðamenn um nærliggjandi svæði og Grýtubakkahrepp.
Þrjú safnanna eru opin alla daga vikunnar frá 1. júní til 31. ágúst. Minjasafnið og Nonnahús frá kl. 10-17 og Gamli bærinn og Gestastofan frá kl. 9-17. Davíðshús og Sigurhæðir eru opin virka daga frá kl. 13-17.
Auk móttöku gesta/ferðamanna og þjónustu við þá þurfa starfsmenn að sjá um sölu á minjagripum, þrif í húsum og halda útisvæðum snyrtilegum.
Sumartarfsmenn skipta með sér vöktum og vinnu í öllum söfnum Minjasafnsins.
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30