Upplifðu lífið eins og það var á 19. öld í burstabæ í Gamla bænum Laufási sunnudaginn 11. júlí. Dagskráin hefst með fjölskyldustund í kirkjunni kl 13:30. þar. Að henni lokinni verður hægt að heimsækja fólkið sem ,,býr“ í bænum þennan dag og lifir og starfar eins og gert var áður fyrr. Laufáshópurinn nálgast fortíðina á aðeins annan hátt í Gamla bænum en áður hefur verðið gert þennan dag. Í tilefni íslenska safnadagsins eru gestir hvattir til að klæða sig  uppá í íslenska búninginn og þeir gestir sem koma í honum fá frítt inn þennan dag. Veitingasala er í Gamla presthúsinu, en þar er hráefni úr héraði í hávegum haft . Opnunartími í Laufási er 9-18 alla daga.

Hægt verður meðal annars að fylgjast með hvernig brauð var bakað á hlóðum og hvernig  unnið var úr mjólkinni og lummuilmur mun fylla vita gesta á gangi í kringum nýja eldhúsið í bænum. Heyskapur verður í fullum gangi á hlaðinu og glímukappar munu takast þar á innan um heyskaparfólkið. 

Veist þú hvað hlunnindi voru í kringum 1900??  Í dúnhúsinu kl 14 hefur þú tækifæri til þess að komast að því hvernig þau voru metin á Laufásjörðinni í kringum árin  1900-1930. Þar getur þú einnig meðal annars handfjatlað æðardún, séð hreiður og egg æðarfugls. 

Það góðgæti sem gert verður í Gamla bænum s.s. nýgerð smjörklípa á heimabökuðu rúgbrauði og nýgert skyr verður hægt að smakka í þjónustuhúsinu. Harmonikkutónlist mun hljóma um alla sveit um leið og kræsingar úr héraði renna ljúflega niður í maga gesta.