Þjóðbúningadagar verða haldnir í Minjasafninu á Akureyri helgina 9. til 10. nóvember milli kl. 13 og 17. Þeir eru haldnir í samstarfi við Heimilisiðnaðarfélag Íslands, sem fagnar 100 ára afmæli í ár og Handraðans, sem er félagsskapur fólks í Eyjafirði sem vinnur að því að viðhalda þekkingu á íslenskum þjóðháttum. Þjóðbúningadagar hefjast á námskeiði í gerð undirpilsa fyrir þjóðbúninga, sem Oddný Kristjánsdóttir, klæðskerameistari og kennari hjá Heimilisiðnarfélagi Íslands stýrir, en fjöldi kvenna vinnur nú í því “að koma sér upp búning” eins og það hefur verið kallað í gegnum tíðina. Laugardaginn 9. nóvember kl. 13 opnar sýning á þjóðbúningum og munum þeim tengdum í eigu Minjasafnsins auk búninga í eigu Heimilisiðnaðarfélagsins og faldbúningum í vinnslu frá konum í Handraðanum. Þá verður örsýning frá Júlíu Þrastardóttur gullsmið um meðhöndlun á víravirkisskarti. Solveig Theodórsdóttir, formaður Heimilisiðnaðarfélags Íslands flytur erindi í tengslum við 100 ára afmæli félagsins kl. 14 og Oddný Kristjánsdóttir heldur fyrirlestur um mismunandi gerðir íslenskra þjóðbúninga frá árinu 1750 til okkar daga kl. 15. Sunnudaginn 10. nóvember milli kl. 13 og 14 gefst almenningi kostur á að koma í Minjasafnið með þjóðbúninga og eða búningahluta og mun Oddný Kristjánsdóttir bjóða upp á greiningu á þeim. Í Safnbúð Minjasafnsins verða valdir munir og bækur tengdir þjóðbúningum íslenskra kvenna. Aðgangsmiði í safnið mun gilda alla helgina og tekið skal fram að þeir sem mæta í þjóðbúningum fá frítt inn.