Minjasafnið opnar á laugardaginn 26. mars kl 14 ljósmyndasýninguna Þjóðin, landið og lýðveldið - Vigfús Sigurgeirsson, ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður  Sýningin var sett upp í Þjóðminjasafni Íslands 2008. Hún samanstendur af ljósmyndum Vigfúsar Sigurgeirssonar ljósmyndara frá árunum 1928-1958. Á henni má meðal annars sjá landlagsmyndir, myndir unnar fyrir heimssýninguna í New York 1939, myndir af fólkinu í landinu við leik og störf auk mynda frá ferðum Vigfúsar innanlands með tveimur fyrstu forsetum lýðveldisins.Gefin var út bók í tengslum við sýninguna í Reykjavík.  Í henni er birt nýtt úrval ljósmynda eftir Vigfús, en slíkt úrval hefur ekki verið gefið út áður, auk þess sem hún inniheldur fræðigreinar. Bókin er til sölu í safnbúð Minjasafnins á AkureyriSýningin stendur fram yfir páska eða til 26. apríl. Vigfús Sigurgeirsson (1900-1984) lærði ljósmyndun á Akureyri hjá Hallgrími Einarssyni 1920 til 1923 og rak ljósmyndastofu þar í bæ frá 1923 til 1936. Á þessum árum mótaðist hann sem ljósmyndari. Líklega er hann þekktastur fyrir störf sín sem opinber ljósmyndari forsetaembættisins til margra ára. Hann fylgdi forsetanum og tók þátt í að móta ímynd embættisins. Framlag hans til íslenskrar menningarsögu er mikið. Hann var einn fremsti ljósmyndari Íslendinga um miðbik 20. aldar og frumkvöðull í íslenskri kvikmyndagerð.

Ljósmyndir Vigfúsar voru sýndar í Hamborg, New York, Kaupmannahöfn og Reykjavík. Ljósmyndabók hans Ísland í myndum var fyrsta ljósmyndabók eftir Íslending og hann varð einnig fyrstur Íslendinga til að gefa út bók með ljósmyndum í lit.

Gefin var út bók um Vigfús Sigurgeirsson í  tengslum við sýninguna í Þjóðminjasafninu 2008 sem ritstýrt er af Ingu Láru Baldvinsdóttur sýningarstjóra. Í Bókinn eru fimm greinar eftir sérfræðinga á ýmsum sviðum: Ágúst Ólaf Georgsson, fagstjóra þjóðháttasafns við Þjóðminjasafn Íslands; dr. Christiane Stahl, forstöðukonu Alfred Ehrhardt Stiftung í Köln; Írisi Ellenberger, sagnfræðing; Lindu Ásdísardóttur, safnvörð við Byggðasafn Árnesinga, og dr. Sigurjón Baldur Hafsteinsson.

Bókin er til sölu í safnbúð Minjasafnins á Akureyri, Þjóðminjasafnsins og í bókaverslunum.