Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma um þessar mundir. Sýningin Tónlistarbærinn Akureyri verður opnuð í Minjasafninu laugardaginn 13. júní klukkan 14 en foropnun fyrir handhafa safnakortsins, Allt árið, verður föstudaginn 12. júní frá klukkan 17 til 20. Safnakortið, sem kostar 2.200 krónur, verður selt á staðnum; það gildir út árið á Minjasafnið á Akureyri, í Nonnahús, Leikfangahúsið, Davíðshús og Gamla bæinn í Laufási.
Vissirðu að ...
fyrstu opinberu tónleikarnir sem vitað er um með vissu á Akureyri voru í júlí árið 1868? Sjóliðar af danskri skonnortu léku þá á einhvers konar blásturshljóðfæri sunnan við Gudmanns Minde.
... söngur við vígslu Akureyrarkirkju 1862 var svo lélegur að það þótti hneyksli?
... ómenntaður alþýðumaður, Magnús Einarsson, var ráðinn fyrsti organisti Akureyrarkirkju? Hann hafði ekki annað til brunns að bera en óbilandi áhuga og ást á söng og annarri tónlist.
... Hekla, sem Magnús „organisti“ stofnaði, var fyrsti íslenski kórinn sem fór utan í söngför? Hekla fór í rúmlega mánaðarferð til Noregs 1905.
... Jóhanna Jóhannsdóttir var líklega fyrsta íslenska bjarnastjarnan? Hún hóf að koma reglulega fram fimm ára snemma á síðustu öld.
... Kristján Jóhannsson er kunnasti tenórsöngvari Íslands síðustu áratugi? Hann söng reglulega í húsum eins og Metropolitan í New York, Covent Garden í London, Vínaróperunni, Parísaróperunni og Scala í Mílanó.
... gárungarnir kölluðu Akureyri stundum Gaulverjabæ um miðja síðustu öld vegna þess hve söngur var útbreiddur og kórastarf öflugt?
... Barnakór Akureyrar braut blað í tónlistarsögu Íslands árið 1954 þegar haldið var til Noregs? Hann var fyrsti íslenski barnakórinn sem fór utan í söngferð.
... Lýður Sigtryggsson sigraði með yfirburðum á Norðurlandamóti í harmonikuleik í Stokkhólmi 1946?
... Pálmi Stefánsson stofnaði Tónaútgáfuna 1967 vegna þess að hann fékk ekki að selja plötur íslenskra útgefenda á Akureyri?
... kvöld í Sjallanum var kveikjan að Iceland Airwaves hátíðinni?
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30