Eyfirski safnadagurinn heppnaðist mjög vel síðastliðinn laugardag. Hátt í 400 gestir komu á Minjasafnið svo hér var mikið líf og fjör. Börn, stór og smá, beisluðu sköpunarkraft sinn með pensil í hendi og Hulduheimar litu dagsins ljós í garðinum. Hlátrasköll fjölskyldna ómuðu um garðinn þegar pabbi sippaði, mamma krítaði og börnin blésu sápukúlur eftir að hafa skoðað sýningar safnsins og gætt sér á lummum og kakói. Takk fyrir komuna. Við sjáumst að ári!